Erlent

Vilja framsal Husmain frá Ítalíu

Ekkert lát er á aðgerðum lögreglunnar í London í kjölfar misheppnaðra árása á borgina fyrir tólf dögum. Tveir menn í viðbót voru handteknir í gærkvöldi. Mennirnir voru handteknir í áhlaupi lögreglunnar á þrjár íbúðir í suðurhluta borgarinnar í gærkvöldi. Aðgerðir lögreglu- og öryggissveita undanfarnar vikur eru þær viðamestu í Bretlandi síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Fleiri en þrjátíu hafa verið handteknir bara vegna seinni árásarhrinunnar á London og yfirheyrslur standa nú yfir tuttugu þeirra. Flest bendir til að Osman Hussain, einn árásarmannanna fjögurra, sem handtekinn var á Ítalíu, hafi komist með lest frá London eftir árásirnar. Það þykir hið mesta hneyksli og stjórnvöld í Bretlandi íhuga að herða reglur um vegabréfaeftirlit við lestarstöðvar hið snarasta. Hússein hefur verið ákærður samkvæmt ítölskum hryðjuverkalögum, en þau gera lögregluyfirvöldum þar kleyft að yfirheyra hann í allt að níu mánuði. Bresk stjórnvöld hafa farið þess á leit að yfirheyrslurnar taki snöggt af og Hússein verði framseldur til Bretlands sem allra fyrst. Skipaður lögfræðingur Hússains segir hins vegar ítölsk lögregluyfirvöld ekki á því að sleppa honum strax, enda segist þau hafa undir höndum gögn sem réttlæti það að halda eigi Hússein á Ítalíu um sinn. Hazel Blears, innanríkisráðherra Bretlands, ætlar á næstu dögum að funda með leiðtogum múslima um allt Bretland, og reyna að finna með þeim leiðir til að sameina ólíka menningarheima í Bretlandi. Hún segir ekki rétt að lögregla beini aðgerðum sínum sérstaklega að múslimum, þó að árásarmennirnir í London hafi allir verið múslimar. Það rökstyðji ekki að leitað sé á fólki eingöngu vegna þjóðernis eða trúarbragða. Í morgun opnaði Lestarlínan milli Hammersmith og City á nýjan leik, nærri mánuði eftir fyrri árásarhrinuna á London. Enn er ekki búið að opna fyrir allar leiðir í neðanjarðar lestakerfinu á ný, en talsmaður samgönguyfirvalda í London segir að vonast sé til að undir lok vikunnar verði búið að opna allar leiðir aftur.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×