Erlent

Lundúnalögreglan í viðbragðsstöðu

Skyttur og sérsveitarmenn í bresku lögreglunni eru á húsþökum og götum í Lundúnum í dag, tilbúnir að bregðast við nýrri hrinu hryðjuverkaárása. Breska lögreglan telur sig nú vita að þriðji hópur hryðjuverkamanna undirbýr sjálfsmorðsárásir á almenningsfarartæki í Lundúnum. Mennirnir eru allir sagðir Pakistanar en fæddir og uppaldir í Bretlandi, líkt og þeir sem gerðu árásirnar sjöunda júlí þar sem yfir fimmtíu voru drepnir. Þessi hópur er einnig sagður tengjast hópnum sem gerði fyrstu hrinu árásanna en sá hópur kom frá Leeds. Times hefur eftir bandarískum heimildamönnum að mennirnir tengist mosku í Finsbury Park í Lundúnum. Lögreglumenn segja Guardian þó að allir geri sér grein fyrir því að hryðjuverkamenn, hvort sem þeir eru herskáir íslamistar eða ekki, geta komið hvaðan sem er og verið hvernig sem er á litinn. Yfirmenn Lundúnalögreglunnar hafa einnig af því vaxandi áhyggjur að erfitt verði að halda því öryggis- og viðbúnaðarstigi sem nú er í borginni en þúsundir viðbótarlögreglumanna eru á götum borgarinnar, öll leyfi hafa verið afturkölluð og unnið er myrkranna á milli. Ian Blair, lögreglustjóri, dregur ekki dul á að menn hans eru orðnir örþreyttir. Sjö voru handteknir í Brighton í gær grunaðir um tengsl við hryðjuverkin, en ekki er vitað meira um það fólk. Bresk yfirvöld fóru formlega fram á það í dag að Osman Hussain, sem handtekinn var í Róm á föstudag, yrði framseldur. Það gæti þó tekið dágóðan tíma og jafnvel verið hafnað. Ítalskir saksóknarar hafa farið fram á rannsókn á hugsanlegum tengslum Osmans Hussain við alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi og komi til réttarhalda væri í fyrsta lagi hægt að framselja hann af þeim loknum - sem gæti tekið meira en ár. Fái hann fangelsisdóm tæki það ennþá lengri tíma. Bresk öryggismálayfirvöld berjast með öllum ráðum við al-Qaeda, að því er virðist. Ísraelskir sérfræðingar hafa tekið eftir því í hálfan mánuð að vefsíður tengdar al-Qaeda og íslömskum öfgamönnum hafa horfið hver af annarri. Tugir vefsíðna þar sem gefnar eru leiðbeiningar um hvernig má setja saman vopn og sprengjur af öllum gerðum finnast ekki lengur og þykjast ísraelsku sérfræðingarnir sjá fingrafar bresku leyniþjónustunnar á þessu dularfulla hvarfi.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×