Erlent

Húsleit á fimmtán stöðum á Ítalíu

Þó að hryðjuverkamennirnir sem gerðu misheppnaðar árásir í Lundúnum fyrir rúmri viku hafi verið handsamaðir er hættan hvergi nærri liðin hjá, að mati bresku lögreglunnar. Athyglin beinist nú að Ítalíu þar sem lögregla gerði í dag húsleit á fimmtán stöðum eftir að einn tilræðismannanna var handtekinn í Róm í gær. Yfirheyrslur yfir mönnunum þremur sem handteknir voru í Lundúnum í gær hafa staðið í allan dag, enda er áhersla lögð á að fá fram allar upplýsingar um hryðjuverk sem fyrst þar sem talið er að atburðir undanfarinna vikna marki aðeins upphaf hrinu árása. Sérfræðingar lögreglunnar leituðu vísbendinga í dag í húsunum þar sem mennirnir tveir voru handteknir í gær. Dómstóll á Ítalíu tók í dag fyrir framsalsbeiðni Breta, sem vilja að Osman Hussain, einn þeirra sem gerðu árásirnar, verði framseldur til Bretlands. Hann var gómaður í gær í Róm eftir að tókst að rekja farsíma sem hann hafði fengið að láni. Antonietta Sonnessa, verjandi Hussains, segist ekkert geta sagt um málið að svo stöddu, enda sé það á byrjunarstigi. Talið er að Osman sé uppalinn á Ítalíu en hann er sagður fæddur í Eþíópíu. Allir tilræðismennirnir hafa verið handsamaðir og er nú ljóst að þeir eiga rætur sínar að rekja til Austur-Afríku. Fyrir utan Osman er Yasin Hassan Omar sem var handtekinn í Birmingham. Hann er frá Sómalíu. Muktar Said Ibrahim og Ramzi Mohammed voru handteknir í Lundúnum í gær, en þeir eru frá Erítreu Um leið var fimmti maðurinn handsamaður, Wahbi Mohammed, talinn bróðir Ramzis. Það voru foreldrar Muktars Said Ibrahims sem þekktu myndina af honum í sjónvarpi og vísuðu á hann en hann á afbrotaferil að baki. Lögreglan segir rannsóknina enn á byrjunarstigi og þó að handtökurnar í gær séu vissulega góð tíðindi verði almenningur að vera áfram vel á verði.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×