Erlent

Bendir allt til sjálfsmorðsárása

Talið er að fjórir tilræðismenn hafi verið meðal þeirra sem létu lífið í hryðjuverkaárásunum í Lundúnum síðastliðinn fimmtudag. Breska lögreglan greindi frá þessu síðdegis og bendir allt til þess að um sjálfsmorðsárásir hafi verið að ræða. Sérsveit bresku lögreglunnar gerði húsleit á nokkrum heimilum í borginni Leeds í Vestur-Jórvíkurskíri í Englandi í morgun í tengslum við leitina á hryðjuverkamönnunum sem skipulögðu sprengjuárásirnar. Sex menn voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar. Meðal heimila sem leitað var á voru heimili þriggja manna af fjórum tilræðismönnum, sem taldir eru hafa látið lífið í árásunum, en staðfest er að fimmtíu og tveir létu lífið í þeim og um 700 særðust. Réttarmeinafræðingar rannsaka nú lík mannanna fjögurra en nokkurn tíma kann að taka að fá endanlega niðurstöðu. Á blaðamannafundi sem breska lögreglan boðaði til síðdegis kom fram að verið væri að púsla saman ferðum mannanna fyrir árásina og rannsaka hvort þeir hefðu allir beðið bana í hryjuverkaárásunum, en þegar hefur verið staðfest að einn þeirra beið bana í sprengingunni sem varð við Aldgate lestarstöðina. Nú er vitað að mennirnir fjórir komu til London með lest að morgni fimmtudagsins. Myndir úr eftirlitsmyndavélum sýna þá við King´s Cross lestarstöðina rétt fyrir klukkan 8.30 að sögn Peters Clarkes hjá hryðjuverkadeild bresku lögreglunnar. Andy Hayman hjá bresku lögreglunni segir engan eiga að velkjast í vafa um að verknaðurinn á fimmtudag var verk öfga- og glæpamanna, og þar sem það sé tilfellið ætti enginn að sverta eða brennimerkja nokkurt samfélag fyrir verknaðinn. 


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×