Innlent

Valgerður heimilaði eignafærslu

Fimmtudaginn 29. ágúst 2002 var samkomulag S-hópsins og Landsbankans um kaup S-hópsins á hlut Landsbankans í VÍS gert opinbert. Samkvæmt óskum framkvæmdanefndar skiluðu hóparnir þrír inn svörum við spurningum framkvæmdanefndarinnar 2. september og fór nefndin yfir svörin tveimur dögum síðar. Á fundi framkvæmdanefndar 4. september lagði ráðgjafi HSBC áherslu á að fá nokkuð nákvæmar upplýsingar um verð á þessu stigi enda teldi hann það nauðsynlegt við val á þeim sem boðið yrði til beinna viðræðna um kaup. Niðurstaða fundarins var sú að hópunum þremur var sent bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um það verð sem þeir væru tilbúnir að greiða fyrir hlutabréfin í Landsbankanum. Frestur til að skila inn verðhugmyndum var gefinn til 6. september. Þá var skýrt frá því í bréfinu að stefnt væri að því að tilkynna 9. september hvern yrði gengið til viðræðna við um söluna. Samson með lægsta tilboðið Kaldbakur skilaði inn hæsta tilboðinu, 4,16 á hlut, S-hópurinn næsthæsta með 4,10 á hlut og Samson var með lægsta tilboðið, sem var á verðbilinu 3,10 til 3,90 á hlut með ýmsum tilgreindum fyrirvörum. Í viðræðum framkvæmdanefndarinnar við hópana hafði Samson ítrekað lýst því yfir að hópurinn væri ekki tilbúinn að greiða hærra verð en sem samsvaraði 3,50 fyrir hlutinn. Framkvæmdanefndin og ráðherranefndin höfðu þó gert grein fyrir því að ekki yrði hægt að taka tilboði undir 3,90 á hlut. Áður en framkvæmdanefndin tilkynnti að farið yrði í viðræður við Samson um kaupin á Landsbankanum höfðu farið fram óformlegar viðræður um verð milli framkvæmdanefndarinnar og Samson. Samson stóð þó fastur á því að ekki kæmi til greina að greiða meira en 3,50 á hlutinn. Niðurstöðurnar úr hinum óformlegu viðræðum urðu þær að Samson myndi skila inn tilboði á verðbilinu 3,10 til 3,90 með ýmsum tilgreindum fyrirvörum og í samningaviðræðum yrði tekið tillit til þeirra fyrirvara sem settir væru fram í tilboðinu. Reiknilíkan sniðið að tilboði Samson Þegar tilboðin voru komin inn var ljóst að Samson var með lægsta tilboðið. Ekki hafði enn verið ákveðið hvernig meta ætti hvern þátt tilboðsins samkvæmt auglýsingunni, það er að segja hvaða vægi hver þeirra fimm þátta sem tilgreindir voru í auglýsingunni ætti að hafa. Leitað var til ráðgjafans, HSBC, til að útfæra matið. Starfsmaður framkvæmdanefndarinnar, Skarphéðinn Berg Steinarsson, fór því til London í því skyni og kom til baka með tilbúið reiknilíkan um það hve mikið vægi hver þáttur ætti að hafa. Hinn 8. september kynnti ráðgjafinn frá HSBC matið og forsendur þess á fundi framkvæmdanefndar. Niðurstaðan var sú að miðað við hinar gefnu forsendur væri Samson líklegast til þess að uppfylla markmið ríkisins með sölunni. Ágreiningur kom upp í nefndinni um matið, ekki síst um vægi verðsins í reiknilíkaninu og hinar huglægu forsendur sem lægju að baki mati annarra þátta líkansins. Bent var á að nær ómögulegt væri að gefa framtíðaráætlunum hópanna einkunn út frá öðrum forsendum en huglægu mati. Því væri óverjandi að þáttur á borð við framtíðaráætlanir yrði jafnveigamikill í reiknilíkaninu og verð. Verðið hafði þriðja mesta vægið Í áliti HSBC voru eftirfarandi þættir í tilboðum bjóðendanna þriggja teknir til athugunar: Fjárhagsstaða fjárfestis, framtíðaráform um rekstur bankans, hugmyndir um staðgreiðsluverð, þekking og reynsla fjárfestis á fjármálamarkaði og skilyrði af hálfu kaupenda. Í reiknilíkani HSBC höfðu tveir fyrstnefndu þættirnir, fjárhagsstaða fjárfestis og framtíðaráform um rekstur bankans, hlutfallslega mesta vægið af þáttunum fimm og jafnframt jafnmikið vægi. Á fundi framkvæmdanefndar var síðasttalda atriðið, skilyrði af hálfu kaupenda, fellt niður sem sérstakt matsatriði áður en reiknilíkanið var sett upp. Þess má geta að Samson hafði sett mun ítarlegri skilyrði en hinir tveir bjóðendurnir um þætti sem gætu haft áhrif til lækkunar á lokaverði á hlut ríkisins í Landsbankanum. HSBC var falið að gera næmnigreiningu á reiknilíkaninu en komst að þeirri niðurstöðu að henni lokinni að tilboð Samson væri það áhugaverðasta að því gefnu að miðað yrði við efri mörk þess verðbils sem fram kom í tilboði Samson, eða 3,90. Í áliti sem HSBC vann fyrir framkvæmdanefndina um niðurstöðurnar úr reiknilíkaninu var lögð rík áhersla á að Samson yrði meðal annars gerð skýr grein fyrir því að að boð sem væri lægra en efstu mörk tilboðs hans, 3,90, yrði ekki talið viðunandi fyrir ríkið. Framkvæmdanefndin lagði niðurstöðurnar fyrir ráðherranefndina án þess að gera tillögu um hvaða tilboði skyldi tekið. Í kjölfarið tók ráðherranefndin þá ákvörðun að á grundvalli mats HSBC skyldi Samson boðið til beinna viðræðna um kaup á hlut ríkisins í Landsbankanum. Steingrímur Ari sagði sig úr nefndinni Eftir ákvörðun ráðherranefndarinnar var framkvæmdanefndinni falið að ganga frá bréfi þar að lútandi. Skoðanaskipti urðu um orðalag bréfsins og lagði einn nefndarmanna, Steingrímur Ari Arason, áherslu á að í bréfinu yrði sett ákveðið lágmarksverð á hluta ríkisins líkt og HSBC hefði mælt með. Aðrir nefndarmenn vildu ekki fallast á tillögu hans og sögðu að tillaga þeirra, sem síðan varð ofan á, tryggði efnislega það sem Steingrímur Ari vildi segja svart á hvítu, að gengið væri til viðræðnanna með því skilyrði að ekki yrði samið um lægra verð á hverjum hlut en 3,90, sem voru efri mörk verðtilboðs Samson. Næsta dag, hinn 10. september 2002, sagði Steingrímur Ari sig úr framkvæmdanefnd með bréfi til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Bréf Steingríms Ara var svohljóðandi: "Í framhaldi af þeirri ákvörðun ráðherranefndar um einkavæðingu að ganga til viðræðna við Samson ehf. um kaup á umtalsverðum hlut í Landsbanka Íslands hf. hef ég ákveðið að segja mig úr framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Ástæðan eru þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í aðdraganda þessarar ákvörðunar og hafa nú leitt til þess að aðrir áhugasamir kaupendur eru sniðgengnir þrátt fyrir hagstæðari tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða. Ég hef setið sem fulltrúi fjármálaráðherra í framkvæmdanefnd um einkavæðingu frá árinu 1991 og aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum. Þar sem ég er bundinn trúnaði um einstaka þætti þessa máls treysti ég því að óhlutdrægur aðili verði fenginn til að fara ofan í saumana á þeim vinnubrögðum sem eru orsök afsagnar minnar." Í greinargerð Ríkisendurskoðunar um Landsbankasöluna frá því í október 2002 kemur fram það samdóma álit fjárfestanna þriggja, Kaldbaks, S-hópsins og Samson, að ekki hafi verið staðið nægilega faglega að verki við söluna. Söluferillinn hafi verið óskýr nánast allan tímann og sömuleiðis markmiðin sem voru að baki. Fjárfestunum þremur hafi fundist að ekki hafi verið fullljóst í upphafi í hvaða farveg málið færi heldur hafi ferlið jafnvel að einhverju leyti verið spunnið eftir því sem á leið. Björgólfur Thor neitaði að taka við bréfi Sama dag og Steingrímur Ari sagði af sér, hinn 10. september, var Björgólfur Thor kallaður á fund Ólafs Davíðssonar í Stjórnarráðinu. Ætlunin var að afhenda honum bréf frá framkvæmdanefnd þar sem tilkynnt yrði um það að nefndin myndi ganga til viðræðna við Samson um söluna á Landsbankanum. Björgólfur Thor mætti í Stjórnarráðið þar sem hluti framkvæmdanefndar var staddur. Ólafur Davíðsson rétti Björgólfi Thor umslag með bréfi þar sem tilkynnt var um ákvörðun framkvæmdanefndar. Um leið og Ólafur rétti Björgólfi Thor bréfið sagði hann eitthvað á þann veg að það yrði að vera ljóst að Samson þyrfti að greiða 3,90 fyrir hlutinn, annað væri ekki ásættanlegt. Björgólfur Thor ítrekaði þá stefnu Samson að greiða ekki hærra verð en 3,50 á hlut. Ólafur endurtók þá að það verð sem endanlega yrði samið um yrði að vera við efri mörk tilboðs Samson, eða 3,90. Sagðist Björgólfur Thor ekki geta samþykkt það, neitaði að taka við bréfinu og yfirgaf Stjórnarráðið. Ólafur skammaði Halldór Þegar Ólafur Ólafsson, einn forkólfanna í S-hópnum, sem bitust á við Samson og Kaldbak um Landsbankann, fékk fréttirnar um að Samson hefði verið valinn til viðræðna við framkvæmdanefnd um söluna á Landsbankanum var hann staddur á hreindýraveiðum austur á landi. Hann hringdi umsvifalaust í Halldór Ásgrímsson, öskureiður, og hellti sér yfir hann fyrir að hafa gert sig að fífli með þátttöku sinni í söluferlinu á Landsbankanum. Hann hefði varið miklum tíma og fjármunum í undirbúning að kaupunum og var ósáttur við að hafa ekki fengið að kaupa bankann þrátt fyrir að hafa verið með besta tilboðið þegar á heildina væri litið. Ferlið spunnið eftir því sem á leið Hinn 18. október 2002 var tilkynnt um samkomulag Samson og framkvæmdanefndar um heildarsöluverð hlutar ríkisins í Landsbankanum, sem var rúmar 139 millljónir Bandaríkjadala, sem samsvaraði rúmum 12,3 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi dalsins á þeim tíma. Verð á hlut var miðað við það 3,92. Greiningardeild Búnaðarbankans hafði gefið út verðmat á Landsbankanum 8. ágúst 2002 og 24. febrúar 2003. Þar var gengið metið á 4,2 í bæði skiptin. Samkvæmt kaupsamningnum yrði greiðsla fyrir bréfin tvískipt. Greitt yrði fyrir 33,3 prósenta hluta innan 30 daga frá kaupsamningi, eða sem samsvaraði um 8,9 milljörðum króna, og fyrir 12,5 prósent, eða 3,4 milljarða króna, að ári liðnu. Í kaupsamningnum voru ákvæði um verðaðlögun, það er að segja að afsláttur allt að 700 milljónum yrði veittur af lokagreiðslu ef þróun efnahagsliða yrði önnur en gengið hefði verið út frá í áætlunum sem lágu til grundvallar við undirritun samkomulagsins frá 18. október. í kjölfar áreiðanleikakönnunar sem KPMG vann á Landsbankanum og birt var 15. desember kom upp ágreiningur milli Samson og framkvæmdanefndar um gæði lána í lánastokki bankans. Sú varð raunin að öll upphæðin sem tiltekin var í samningunum, 700 milljónir, kom til frádráttar frá lokagreiðslunni og nam hún því sem samsvarar 2,7 milljörðum króna. Endanlegt kaupgengi hlutar Samson í Landsbankanum var því 3,7. Nýir eigendur tóku við stjórn Landsbankans á aðalfundi 14. febrúar 2003. Í nýju bankaráði áttu sæti Björgólfur Guðmundsson, Einar Benediktsson, Andri Sveinsson, Þorgeir Baldursson og Kjartan Gunnarsson. Halldór skipuleggur símafund Áður en ákvörðun framkvæmdanefndarinnar um valið á Samson til viðræðna um kaupin á Landsbankanum, hinn 10. september, var tilkynnt hafði Halldór Ásgrímsson haft milligöngu um það að hinir hóparnir tveir, Kaldbakur og S-hópurinn, sameinuðust um kaupin á Búnaðarbankanum. Allt frá því að söluferlið fór af stað höfðu hópunum tveimur borist skilaboð, bæði beint og óbeint, frá framkvæmdanefndinni um að reyna að sameinast í einn fjárfestahóp. S-hópnum hugnaðist fyrst og fremst ekki að vinna með Þorsteini Má Baldvinssyni. Fulltrúar hópanna áttu samtöl um hugsanlega samvinnu sín á mili, en ekkert varð úr því að þeir ræddu málið af fullri alvöru fyrr en Halldór Ásgrímsson skipulagði símafund þar sem hann, ásamt helstu fulltrúum beggja hópanna, ræddi um hugsanlega sameiningu hópanna. Ólafur Ólafsson í Keri var sá eini sem ekki tók þátt í fundinum og gaf þá skýringu á fjarvist sinni að hann væri á leið austur á firði á hreindýraveiðar og því ekki í öruggu símasambandi. Símafundurinn átti sér því stað áður en tilkynnt var um val framkvæmdanefndar á Samson til viðræðna um Landbankann. Auk Halldórs Ásgrímssonar voru á símafundinum Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Eiríkur Jóhannesson frá Kaldbaki og fulltrúar S-hópsins; Axel Gíslason forstjóri VÍS, Margeir Daníelsson, Geir Magnússon, Óskar Gunnarsson og Þórólfur Gíslason. Á fundinum bað Halldór Ásgrímsson hópana tvo að reyna að sameinast um kaupin á Búnaðarbankanum, þeir yrðu að gera það ef hann ætti að geta hjálpað þeim. Það gekk ekki eftir. Ein eða fleiri erlendar fjármálastofnanir" Hinn 5. nóvember sendi framkvæmdanefnd frá sér tilkynningu um að ákveðið hefði verið að ganga til viðræðna við hóp fjárfesta sem samanstæði af Eignarhaldsfélaginu Andvöku, Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, VÍS, Kaupfélagi Skagfirðinga og Samvinnulífeyrissjóðnum "auk einnar eða fleiri erlendra fjármálastofnana", eins og fram kom í tilkynningunni. Ekki var því enn ljóst á þessum tíma hverjar hinar tilgreindu erlendu fjármálastofnanir voru. S-hópurinn átti á þessum tíma í viðræðum við útibú franska bankans Societe General í Frankfurt, en önnur stofnun bankans veitti S-hópnum ráðgjöf varðandi kaupin. Framkvæmdanefndin hafði á þessum tíma ekki enn fengið uppgefið frá S-hópnum hver eða hverjir hinir erlendu fjárfestar væru. Skýringar S-hópsins voru þær að erlendi fjárfestirinn vildi ekki koma fram fyrr en samningar hefðu verið undirritaðir. Til þess að skera úr um það hvort erlendi fjárfestirinn væri áreiðanlegur var samið um það við S-hópinn að hann myndi gefa ráðgjöfum framkvæmdanefndarinnar, HSBC, upp nafnið á fjárfestinum og HSBC myndi síðan upplýsa nefndina um hvort hann væri áreiðanlegur. Niðurstaða HSBC var jákvæð í garð fjárfestisins. Umsögn HSBC vakti spurningar eftir á Umsögn HSBC um erlenda fjárfestinn vakti ekki spurningar meðal framkvæmdanefndarinnar fyrr en daginn sem skrifað var undir samninginn við S-hópinn og tilkynnt var hver erlendi fjárfestirinn var, þýski einkabankinn Hauck & Aufhauser. Nefndarmönnum fannst þá að umsögn HSBC hefði ekki getað átt við Hauck & Aufhauser því hún hefði dregið upp mynd af stórum alþjóðlegum fjárfestingabanka, sem Hauck & Aufhauser er ekki. Umsögn HSBC hefði mun frekar átt við Société Générale, sem var sjötti stærsti banki í Evrópu, en S-hópurinn átti á þessum tíma í viðræðum við bankann um að taka þátt í kaupunum. S-hópurinn neitar því að hafa gefið upp annað nafn en Hauck & Aufhauser, en Fréttablaðið hefur meðal annars óskað eftir því á grundvelli upplýsingalaga að fá afhent afrit af umsögn HSBC um hinn ónefnda erlenda banka. Beiðninni var synjað og er nú til meðferðar hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Eignatilfærslur innan S-hópsins Hinn 12. nóvember 2002 áttu sér stað talsverð viðskipti innan félaga í S-hópnum. Þórólf Gíslason, kaupfélagsstjóra Kaupfélags Skagfirðinga, og Ólaf Ólafsson, þáverandi forstjóra Samskipa, greindi á um rekstur Kers, sem þeir voru báðir stjórnarmenn í. Tvær fylkingar höfðu tekist á innan S-hópsins en þær deilur voru leystar með tilfærslum eigna þennan dag. Norvik, eignahaldsfélag BYKO, keypti 25 prósent hlutafjár í VÍS af Keri fyrir 3,4 milljarða króna en seldi hlutinn til Hesteyrar nokkrum dögum síðar í skiptum fyrir hlut Hesteyrar í Keri. Hesteyri var í eigu Kaupfélags Skagfirðinga og Skinneyjar Þinganess, sem Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra á hlut í. Norvik var að stórum hluta í eigu Jóns Helga Guðmundssonar í BYKO, sem tilheyrði jafnframt Gildingarhópnum svokallaða, en Gildingarhópurinn átti orðið stóran hlut í Búnaðarbankanum. Með þessum viðskiptum tók Ólafur Ólafsson við stjórnartaumunum í Keri og Þórólfur Gíslason í VÍS. Þá var innkoma Norvikur í Ker sögð styrkja S-hópinn fyrir kaupin á Búnaðarbankanum. Hannes Smárason var kjörinn í stjórn Kers fyrir hönd Norvikur á stjórnarfundi félagsins sem haldinn var stuttu síðar, en Jón Helgi hafði jafnframt mikil völd innan Kers. Frestun á samningum vegna óvissu um erlenda fjárfestinn Hinn 19. nóvember 2002, tveimur vikum eftir að framkvæmdanefnd hafði tilkynnt um viðræður við S-hópinn um Búnaðarbankann, setti Kauphöll Íslands Búnaðarbankann á athugunarlista vegna þess að ekki væri enn ljóst hvernig aðkomu franska bankans, Société Générale, yrði háttað. Franski bankinn ætlaði að taka sér frest til 6. desember til að ákveða hvernig hann kæmi að málinu. Fulltrúi HSBC-bankans í London sem sá um úttekt á kaupendum bankanna staðfesti við Fréttablaðið á þessum tíma að yfirgnæfandi líkur væru á aðkomu alþjóðlegs banka að kaupum S-hópsins. S-hópurinn fékk að minnsta kosti tvívegis frest hjá framkvæmdanefnd til að staðfesta aðild erlenda fjárfestisins að kaupunum á Búnaðarbankanum. Fyrri fresturinn var veittur 19. nóvember og átti að gilda til 6. desember. Hinn 9. desember tilkynnti framkvæmdanefnd að fresturinn hefði verið framlengdur til 13. desember. Áfram væri þó stefnt að því að kaupsamningar yrðu frágengnir fyrir lok ársins. Máttu selja 12,5 prósent strax Hinn 16. janúar 2003 var skrifað undir kaupsamning við S-hópinn á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Söluverðið var rúmlega 11,2 milljarðar króna. Ekki samið um að öllm upphæðin yrði staðgreidd, en um leið og búið var að skrifa undir samninginn fór S-hópurinn með valdið sem fylgdi eignarhlutnum þó svo að ekki væri búið að afhenda hann formlega. Ríkið átti því í raun 18,32 prósent í Búnaðarbankanum þegar hann sameinaðist Kaupþingi í maí 2003. Samkvæmt kaupsamningi ríkisins og S-hópsins var nýju eigendunum frjálst að selja 12,5 prósent af hlutnum, sem var alls 45,8 prósent, og sameinast öðru fyrirtæki. Samkvæmt samningnum átti að greiða fyrir 27,48 prósent útgefins hlutafjár innan 30 daga og var upphæðin um 6,7 milljarðar. Hinn hlutann, 18,32 prósent af útgefnu hlutafé, skyldi greiða fyrir 20. desember 2003. Verðmæti hans var um 4,5 milljarðar. Hlutir S-hópsins skiptust á eftirfarandi hátt: Egla átti 71,2 prósent, en eigendur Eglu voru þýski bankinn Hauck & Aufhauser sem átti 50 prósent í félaginu, Ker 49,5 prósent og VÍS 0,5 prósent. VÍS átti að auki 12,7 prósent, Samvinnulífeyrissjóðurinn 8,5 prósent og Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar 7,6 prósent. Hauck & Aufhauser var því stærsti hluthafinn í Búnaðarbankanum með 16,3 prósent, hlutur Kers var 16,1 prósent, samanlagður hlutur VÍS 6 prósent, hlutur Samvinnulíferyissjóðsins 3,9 prósent og Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga 3,5 prósent.. S-hópur fékk lán hjá Landsbankanum Skömmu áður en Samson tók við Landsbankanum og gengið var frá samningum milli ríkisins og S-hópsins um Búnaðarbankann var félögum innan S-hópsins veitt lán upp á 6 til 8 milljarða króna. Lánið var á hagstæðum kjörum, eða 1,4 yfir LIBOR, og var veitt til þess að greiða fyrri greiðslu S-hópsins til ríkisins fyrir Búnaðarbankann. Sú greiðsla hljóðaði upp á 6,7 milljarða. Um þrír milljarðar af lánsupphæðinni fóru til Eglu, sem þýski bankinn Hauck & Aufhauser átti helmingshlut í, Ker 49,5 prósent og VÍS 0,5 prósent. Hauck & Aufhauser hafði því tekið um 1,5 milljarða króna lán á Íslandi til að fjármagna kaupin á Búnaðarbankanum en S-hópurinn var meðal annars valinn til kaupanna vegna þess að erlendur fjárfestir var þar á meðal. Sameining við Kaupþing Í mars 2003, um tveimur mánuðum eftir að S-hópurinn skrifaði undir kaupsamning um Búnaðarbankann, var tilkynnt um fyrirhugaða sameiningu Kaupþings og Búnaðarbankans. S-hópurinn hafði þá átt í margra mánaða viðræðum við Kaupþing um hugsanlega sameiningu og hafði Ólafur Ólafsson átt fundi með Sigurði Einarssyni mánuðum áður en kaupsamningurinn um Búnaðarbankann var undirritaður. Áður en tilkynnt var um sameiningu Búnaðarbankans og Kaupþings höfðu S-hópsmenn einnig átt í viðræðum við Samson um hugsanlega sameiningu Búnaðarbankans og Landsbankans. Daginn sem tilkynnt var um fyrirhugaða sameiningu Búnaðarbanka og Kaupþings höfðu Ólafur Ólafson og Jón Helgi Guðmundsson, fulltrúar S-hópsins verið á fundi með Landsbankamönnunum Björgólfi Guðmundssyni, Kjartani Gunnarssyni og Halldóri J. Kristjánssyni um hugsanlega sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans. Þýski bankinn selur Í kaupsamningi milli ríkisins og S-hópsins kom fram að hluthöfum Eglu var óheimilt að selja, eða ráðstafa á annan hátt, hlutum sínum í Eglu í tuttugu og einn mánuð frá undirritun samningsins 16. janúar 2003, nema að fengnu skriflegu samþykki viðskiptaráðherra. Peter Gatti, fulltrúi Hauck & Aufhauser sem átti helmingshlut í Eglu, sagði við fjölmiðla við undirskrift kaupsamningsins að bankinn myndi halda eignarhlut sínum í Búnaðarbankanum í að minnsta kosti tvö ár líkt og kveðið væri á um í kaupsamningnum. Að þeim tíma liðnum yrði ávöxtunin metin og fjárfestingin endurskoðuð. Þrettán mánuðum eftir undirritun kaupsamnings, eða 20. febrúar 2004 keypti Ker þriðjung af hlutafé Hauck & Aufhauser í sameinuðum KB banka. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra veitti leyfi fyrir viðskiptunum. Lokagreiðsla S-hópsins fyrir hlut ríkisins í Búnaðarbankanum var reidd af hendi í desember 2003, og þar með lauk einkavæðingu ríkisbankanna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×