Sport

Seattle - Sacramento

Það varpar óneitanlega skugga á þessa rimmu að lið Seattle Supersonics og Sacramento Kings, eru í miklum vandræðum með meiðsli lykilmanna sinna og því hafa margir hreinlega afskrifað möguleika þeirra á að ná langt í úrslitakeppninni. Seattle Supersonics hafa líkt og Phoenix Suns, komið gríðarlega á óvart í vetur með góðu gengi, en þeim var nær undantekningarlaust spáð einu af neðstu sætunum í Vesturdeildinni fyrir tímabilið. Nate McMillan, þjálfari liðsins hefur náð undraverðum árangri með liðið í vetur og nú þarf liðið að sanna að gengi þess á tímabilinu hafi ekki verið tilviljun. Mikið mun mæða á Ray Allen í stigaskoruninni, því leikmenn eins og Vladimir Radmanovic og Rashard Lewis ganga ekki heilir til skógar. Liðið treystir mikið á langskot og það er vafasamt uppáhald þegar komið er í átökin í úrslitakeppninni, en þó skyldi enginn afskrifa þá alveg. Það sama er raunar uppi á teningnum hjá liði Sacramento Kings, en auk þess að hafa skipt Chris Webber í burtu frá liðinu, glíma þeir Brad Miller, Peja Stojakovic og Bobby Jackson allir við erfið meiðsli og enginn þeirra mun geta beitt sér að fullu í leikjunum við Seattle, svo að mikið mun mæða á leikstjórnanda þeirra Mike Bibby, sem oftar en ekki hefur borið liðið á herðum sér í úrslitakeppninni. Fyrsti leikur liðanna er á laugardagskvöldið í Seattle.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×