Erlent

Útför páfa á föstudag

Útför Jóhannesar Páls páfa II mun fara fram næstkomandi föstudag, 8. apríl. Páfagarður tilkynnti þetta fyrir stundu. Búist er við að u.þ.b. tvö hundruð þjóðarleiðtogar verði þar viðstaddir.

Lík páfa verður flutt á viðhafnarbörum að Péturskirkju í dag og gert er ráð fyrir að milljónir manna muni leggja leið sína þangað í dag og næstu daga. Almenningi verður gert kleift að votta honum þar virðingu sína. Þegar hafa verið gerðar miklar ráðstafanir í Rómarborg vegna mannfjöldans sem búist er við næstu daga. Þannig hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að koma til móts við hugsanlegan skort á mat og vatni í borginni og eins hefur verið komið upp sérstökum skýlum þar sem gestir geta gist þar sem öll hótel og gistiheimili eru þegar bókuð.

Fyrir utan Péturskirkju hefur verið komið upp sjúkratjaldi og eins verður gríðarlegur fjöldi lögreglumanna á vakt á Péturstorgi næstu dagana. Þá eru samgönguyfirvöld Rómarborgar í óða önn að skipuleggja leiðir til þess að koma fólki til og frá torginu, án þess að of mikil ringulreið skapist. -

Ekki hefur enn verið upplýst um hvar Páfi verður jarðaður. Algengast er að páfar séu jarðaðir í hvelfingu undir Péturskirkju en sumir hafa gert að því skóna að Jóhannes Páll verði ef til vill borinn til grafar í heimalandi sínu, Póllandi. Nú líða að minnsta kosti tvær vikur uns kardínálar koma saman til þess að kjósa nýjan páfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×