Innlent

Börnum með átröskun fjölgar

Barna- og unglingageðdeild Landspítalans þurfti að fást við tvöfalt til þrefalt fleiri tilfelli átröskunar í fyrra en næstu ár á undan. Nýjar beiðnir vegna sjúkdómsins hafa verið tíu til fimmtán á ári að meðaltali þar til á síðasta ári þegar þær voru þrjátíu talsins. Meðferð vegna átröskunar tekur mörg ár og stundum reynist hún árangurslaus, þannig að sjúkdómurinn leiðir viðkomandi með einum eða öðrum hætti til bana. Fjöldinn hefur verið nokkuð svipaður undanfarin ár á fullorðinsgeðdeildinni segir Eydís Sveinbjarnardóttir, sviðsstjóri geðsviðs Landspítala - háskólasjúkrahúss. "Tölur á barna- og unglingageðdeild sýna einkum fjölgun milli 2003 og 2004," segir Eydís en bætir við. "Það ber að varast að oftúlka þær tölur þar sem þær sýna einungis breytingu milli tveggja ára en ekki á lengra tímabili. Eydís segir marga fá vægar átraskanir og þeir sæki ekki þjónustu á geðsviði. "Fólk fær þá þjónustu á heilsugæslustöðvum, á stofnunum sálfræðinga og annarra fagmanna úti í bæ. Jafnvel skoða sumir lífsstíl sinn sjálfir og sækja enga þjónustu. Hjá þeim sem sækja þjónustu á geðsviði er sjúkdómurinn kominn á alvarlegra stig." Spurð hversu mörgum slíkum sjúklingum geðsviðið gæti tekið á móti á hverjum tíma segir Eydís að fjármagn vanti til þess að hægt sé að sinna þeim einstaklingum sem leita til geðsviðsins eins og þarf. "Við sinnum öllum bráðakomum. Það sem þarf er að það starfsfólk sem hefur þjálfað sig og sérmenntað sig til að sinna þessum sjúklingahóp fái að gera það nær eingöngu," segir Eydís en bætir við að ef slíkt yrði gert nú myndi önnur þjónusta á geðsviði líða fyrir það. Að undanförnu hefur verið unnið að því að koma upp göngudeildarþjónustu fyrir átröskunarsjúklinga á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Eydís sagði að það þyrfti 16 - 18 milljónir króna á ári til að koma upp viðunandi göngu - og dagdeildarþjónustu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×