Sport

Shevchenko frá fram yfir páska

Nú er ljóst að AC Milan verður án úkraínsku markamaskínunnar Andriy Shevchenko næsta mánuðinn en það fékkst staðfest í dag þegar hann gekkst undir læknisaðgerð á Ítalíu. Settar voru málmplötur í andlit leikmannsins í aðgerðinni sem að sögn heppnaðist fullkomlega. AC Milan hefur einnig staðfest að aðeins hársbreidd munaði að Shevchenko slasaðist lífshættulega í samstuðinu við Simone Loria, leikmann Cagliari í leik liðanna um helgina. "Hefði höggið lent sentimeter ofar væri leikmaðurinn í lífshættu" sagði prófessor Massimiliano Sala, sem er í læknastaffi Mílanóstórveldisins. Þessi tíðindi þýða að Milan verður án Shevchenko í báðum leikjum sínum gegn Man Utd í Meistaradeildinni og ekki von á honum í slaginn fyrr en í fyrsta lagi eftir páska. Umrætt atvik minnir kunnuga á svipað atvik sem átti sér stað í nóvember 1982 þegar ítalska goðsögnin Giancarlo Antognoni lét næstum lífið í leik með liði sínu Fiorentina. Hann fékk högg, sentímeter ofar en Shevchenko mátti þola á sunnudag, þegar markvörður Genoa rak hnéð í höfuðið á honum. Leikmaðurinn missti meðvitund og fór í höfuðaðgerð en til allrar hamingju varð honum ekki meint af og slapp án allra eftirkasta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×