Innlent

Helmingi fleiri nefna Ingibjörgu

Rúmlega 63 prósent telja að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði næsti formaður Samfylkingarinnar, en einungis 32 prósent nefna núverandi formann, Össur Skarphéðinsson. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem Fréttablaðið lét framkvæma. Ef einungis er litið til þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkinguna er munurinn enn meiri. Ef einungis er tekið tillit til þeirra sem taka afstöðu telja tæp 77 prósent að Ingibjörg Sólrún taki við formennsku, en rúm 21 prósent telja að Össur haldi áfram. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði segir að hann telji Össur enga möguleika eiga á sigri. Staðan hans hafi þó batnað síðan fyrir einu til tveimur árum. Síðan fyrir kosningar hafi staða Ingibjargar Sólrúnar veikst, en það fylgi því að vera ekki á þingi. "Össur er sterkur í flokknum, fyrir utan að njóta meiri vinsemdar í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. En það er erfitt að sjá fyrir sér að hann vinni þennan slag. Hann sagði sjálfur að hann sæi Ingibjörgu Sólrúnu fyrir sér sem framtíðarleiðtoga." Gunnar Helgi segir erfitt að meta stöðu þeirra tveggja í formannskosningunni út frá öðrum baráttum um formannsembætti stjórnmálaflokks. "Það er nærtækast að bera saman Davíð Oddsson og Þorstein Pálsson árið 1991. En þar var munurinn mun minni á milli frambjóðendanna. Þar gat enginn sagt fyrir fram hvernig myndi fara, þrátt fyrir að menn hafi gert því skóna að Davíð yrði framtíðarleiðtogi flokksins." Gunnar Helgi man ekki eftir formannsslag þar sem sitjandi formaður hafði svo slaka stöðu. Ekki er búið að ákveða hvenær kosning hefst. Nú eru um 14.000 á kjörskrá, og verður kosið um formanninn meðal flokksmanna Samfylkingarinnar í póstkosningu, um það bil mánuði áður en landsfundur flokksins hefst. Búið er að skipa þriggja manna undirbúningsnefnd fyrir kosningarnar, en í henni sitja Flosi Eiríksson, Jón Gunnar Ottósson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×