Sport

Carter kjaftaði frá kerfi

Vince Carter, sem nýlega gekk til liðs við New Jersey Nets í NBA-körfuboltanum, hefur verið ásakaður um tilraun til að skemma leik fyrir þáverandi liði sínu, Toronto Raptors. Enn er óljóst hvort hegðan Carters hafi orðið til þess að honum var skipt frá liðinu í síðustu viku. Rob Babcock, framkvæmdastjóri Raptors, var spurður út í atvikið í leiknum, tjáði sig ekki um málið, en skipti Carter tveimur dögum seinna til New Jersey Nets fyrir Alonzo Mourning, Aaron Williams, Eric Williams og tvo valrétti. Þrír leikmenn Seattle Supersonics fullyrða að Carter hafi vísvitandi gefið andstæðingum sínum upplýsingar um kerfi sem að leikmenn Raptors ákváðu í leikhléi 29 sekúndum fyrir leikslok þegar liðin mættust í Toronto 19. nóvember sl. Staðan var 97-90 gestunum í vil þegar Raptors stillti upp fyrir innkast. Carter staðsetti sig andspænis varamannabekk Seattle og áður en innkastið átti sér stað sagði hann varamönnum Sonics hvaða kerfi væri framundan. Viðbrögð leikmanna Sonics sem sátu á bekknum voru: "Heyrðuð þið þetta? Sáuð þið þetta? Þvílíkt rugl," heyrðist frá varamannabekk Sonics. Leikurinn endaði 101-94 fyrir Seattle. Leikmenn Sonics veltu vöngum yfir tilgangi Carters með uppátækinu. "Ef þú gerir þetta einhverntímann mun ég útskúfa þig úr deildinni," sagði einn af þjálfurum Sonics við einn leikmanna sinna. Reggie Evans, leikmaður Sonics, vildi lítið sem ekkert tjá sig um málið. "Hann verður að eiga þetta við sig og sína samvisku. Ég læt frekar Ray tala um svona mál," sagði Evans. Ray Allen, stigahæsti maður Sonics í vetur, sagði að um tvennt væri að ræða. "Annað hvort var hann að sýna fram á að við gætum ekki stoppað hann þó að við vissum hvaða kerfi þeir væru að spila eða að láta okkur vita svo við gætum stoppað hann," sagði Allen. Ónefndur samherji Allens sagði að leikmenn Sonics hafi öllum fundist Carter ætla að eyðileggja leikinn fyrir Raptors vegan þess að áhorfendur hefðu baulað ítrekað á sig og að hann vildi komast frá liðinu hið fyrsta. Rob Babcock, framkvæmdastjóri Toronto Raptors, sagðist enga vitneskju haft um framkomu Carter. "Ég vissi ekki af þessu en ef þetta er tilfellið yrði ég mjög óhress með það mál og myndum við tækla það við fyrsta tækifæri," sagði Babcock.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×