Sport

Bayern vetrarmeistari í Þýskalandi

Bayern München er vetrarmeistari í þýsku Bundesligunni í knattspyrnu eftir 2-2 jafntefli við VfB Stuttgart í toppslag þýsku deildarinnar í gær. Þýska deildin er komin í sex vikna vetrarfrí eins en það leit lengi vel út fyrir það í gær að Bæjarar væru að missa toppsætið eftir að Stuttgart komst í 2-0 með mörkum Silvio Meissner og Kevin Kuranyi. En Perúbúarnir Claudio Pizarro og Paolo Guerrero skoruðu báðir á síðustu tuttugu mínútum og tryggðu Bayern 2-2 jafntefli og þar með toppsætið á betri markatölu en Schalke 04, sem gerði einnig jafntefli í gær, gegn SC Freiburg sem hafði fyrir leikinn tapað sjö leikjum í röð. Bayern og Schalke hafa þremur stigum meira en Stuttgart. Hinn tvítugi Paolo Guerrero, sem byrjaði tímabilið með varaliði Bayern í þýsku 3. deildinni, lagði einnig upp fyrra mark liðsins sem landi hans Pizarro skoraði en jöfnunarmarkið kom tveimur mínútum fyrir leikslok þegar Guerrero var á réttum stað til að fylgja eftir skalla Michaels Ballack. Strákurinn hefur skorað mikilvæg mörk fyrir liðið eftir að hann fékk tækfærið og það þykir örugglega flestum furðulegt að í þessu stórliði skuli það vera tveir leikmenn frá Perú sem eru að skora mörkin. "Við vorum mjög heppnir í dag," sagði Uli Höness, einn forráðamanna Bayern, en liðið fékk aðeins tvö stig út úr síðustu tveimur leikjum sínum, sem heldur mikilli spennu í toppbaráttunni þegar keppni hefst aftur í lok janúar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×