Innlent

Verður ekki hrakinn úr flokknum

Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður segist ekki láta hrekja sig úr Framsóknarflokknum. Sjónarmið hans eigi hljómgrunn innan flokksins. Tólf framsóknarfélag í norðvesturkjördæmi af tuttugu og sex hafa harmað í ályktunum þá stöðu sem er uppi innan flokksins eftir að Kristni var vikið úr öllum þingnefndum flokksins. Heitt var í kolunum á kjördæmisþingi í norðvesturkjördæmi í dag.  Alls standa tæplega níuhundruð manns að þeim félögum sem hafa ályktað um stöðu Kristins H. Gunnarssonar innan þingflokksins. Tvöþúsund eru félagar í framsóknarfélögum í kjördæminu öllu. Eitthundrað og sjötíu fulltrúar voru á þinginu en sérstakur gestur var Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. Kristinn H. Gunnarsson gerði nýlega skýrslu um lýðræði og trú manna á stjórnmálamönnum að umtalsefni á þinginu síðdegis. Hann reifaði þar mál sem hann taldi síst líkleg til að auka mönnum traust á stjórnmálamönnum, svo sem fjölmiðlamálið og skipan Hæstaréttardómara, og gerði framgöngu fyrrverandu forsætisráðherra að umtalsefni.  Kristinn sagði stjórnmál ekki vera eins og Morfís-mælskukeppni þar sem mönnum væri úthlutaður málstaður. Stjórnmál væru sannfæring, að standa á henni og fara að lýðræðislegum leikreglum. „Og ef við gerum það þá held ég að við uppskerum aukna virðingu samborgara okkar, við sem erum á stjórnmálasviðinu,“ sagði Kristinn. Þingmaðurinn sagðist sáttfús maður og að hann væri tilbúinn að ræða við menn um málefni og sjálfan sig. „En ég verð ekki barinn til bókarinnar, ég verð ekki hrakinn úr flokknum, vegna þess að þau sjónarmið sem ég stend og tala fyrir eiga mikinn hljómgrunn meðal kjósenda flokksins. Þess vegna á ég samleið með flokknum,“ sagði Kristinn.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×