Sport

Markadrottningar KR enn á förum

Kvennalið KR í knattspyrnu hefur misst tvo markahæstu leikmenn sína frá því í sumar því Hólmfríður Magnúsdóttir hefur ákveðið að ganga til liðs við ÍBV og Guðlaug Jónsdóttir er á leiðinni til Breiðabliks. Hólmfríður var markahæsti leikmaður KR-liðsins á þessu tímabili með 13 mörk og lagði einnig upp flest mörk allra leikmanna liðsins eða 12 en KR endaði í 3. sæti Landsbankadeildar kvenna. Guðlaug var önnur markahæst í liðinu með 10 mörk og lagði einnig upp sex mörk til viðbótar. Þetta þýðir að KR-liðið, sem hefur ekki endað neðar í deildinni í níu ár (4. sæti, 1995), hefur misst markadrottningu sína þrjú ár í röð þar af þær tvær markahæstu hjá liðinu síðustu tvö ár. Olga Færseth var markahæst í deildinni sumarið 2002 ásamt félaga sínum í KR-liðinu Ásthildi Helgadóttur með 20 mörk en skipti yfir í ÍBV fyrir næsta tímabil. Sumarið á eftir varð Hrefna Huld Jóhannesdóttir markahæst í deildinni með 21 mark og Ásthildur sú næstmarkahæsta hjá KR-liðinu með 16 mörk. Bæði sumarið 2002 og 2003 vann KR-liðið titilinn en í sumar náði vesturbæjarliðið ekki að fylla í skörð þeirra Hrefnu og Ásthildar sem báðar fóru til erlendra liða, Hrefna til Noregs og Ásthildur til Svíþjóðar. Öll árin hefur KR því misst 20 mörk eða meira úr framlínu sinni og það gæti orðið erfitt fyrir nýráðinn þjálfara liðsins, Írisi Björk Eysteinsdóttur, að finna þá leikmenn sem eiga að skora mörkin fyrir KR-liðið næsta sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×