Innlent

Geðsjúkur fangi í einangrun

Fangelsismálayfirvöld þurfa að hafa aðgang að fleiri og betri plássum á geðdeildum fyrir fanga sem eru illa staddir, segir Erlendur Baldursson hjá Fangelsismálastofnun. Nauðsyn hefur borið til að vista mjög geðsjúkan fanga sem dvaldi í öryggisgæslu á Sogni, á Litla - Hrauni í átta daga, eftir að hann hafði tekið kast á fyrrnefnda staðnum. Erlendur sagði að það heyrði til undantekninga að grípa þyrfti til úrræða af þessu tagi. "Það hefur gengið illa að koma föngum inn á geðdeildir þegar þeir hafa þurft á að halda," sagði Erlendur. "En við erum ekki með nein fangelsissjúkrahús. Við höfum notað kerfið fyrir utan fangelsið. Við höfum látið skólann fyrir utan koma með kennslu inn í það. Við látum læknana koma inn í fangelsið til að lækna fólk. Sama stefna hefur verið að nota geðdeildirnar líka. Fangi sem veikist þarf alveg sömu hjálp og aðrir sem veikjast. En þar hefur hnífurinn staðið í kúnni og komið hefur fyrir að við höfum fengið menn senda aftur þegar við höfum reynt að vista þá á geðdeild." Stjórn Geðhjálpar hefur lýst þungum áhyggjum vegna þess úrræðaleysis sem ríkir í málefnum geðsjúkrafanga. Dæmdur einstaklingur sem gert hafi ítrekaðar tilraunir til sjálfsvíga innan fangelsisveggja hafi verið neitað um aðgengi að nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu, en er þess í stað vistaður í einangrunarklefa í fangelsi. Vistmaður á réttargeðdeildinni á Sogni hafi verið fluttur í gæsluvarðhaldseinangrun í fangelsið á Litla-Hrauni. Sá síðari dvaldi þar í átta daga eins og fram kom hjá Erlendi. "Við vitum að það hafa verið um sjö fangar sem hafa verið geðsjúkir en hafa ekki fengið viðhlítandi meðferð á stofnunum vegna þess að þeir eru fangar og þar af leiðandi taldir erfiðir sjúklingar," sagði Sigursteinn Másson stjórnarformaður Geðhjálpar.. Geðhjálp hefur ítrekað skorað á stjórnvöld að bæta til muna geðheilbrigðisþjónustu fanga.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×