Innlent

Málaferli gegn borginni

Oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn telur fráleitt að líta svo á að hömlur sem settar voru á uppbyggingu matvöruverslana í Grafarvogi gildi enn. Engum geti dottið í hug að þær hafi átt að gilda að eilífu. Verið er að undirbúa málaferli gegn Reykjavíkurborg vegna samninga um einokun Baugs á matvöruverslun í hverfinu.  Borgarráð samþykkti árið 1996 að setja ákveðnar kvaðir við uppbyggingu í Grafarvogi. Þar segir orðrétt: „Til að stuðla að því að nærþjónusta, matvöruverslun, geti byggst upp næstu árin samkvæmt aðalskipulagi þarf að sjá til þess að matvöruverslanir rísi ekki á nærliggjandi athafnasvæði í Gylfaflöt og Fossaleynismýri.“ Í lóðarleigusamninga á athafnasvæðinu voru í kjölfarið settir þeir skilmálar að óheimilt væri að starfrækja á lóðinni hvers konar verslanir með matvöru, svo sem stórverslanir og söluturna. Ekki verði veitt starfsleyfi af hálfu borgarinnar fyrir slíkan rekstur á þessum svæðum. Þetta var samþykkt einróma í borgaráði á sínum tíma. Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði í fréttum okkar í gærkvöld að ekki stæði til að aflétta þessum kvöðum. Þær væru ríkjandi um alla borg til að koma í veg fyrir óreiðu. Aðspurður hvort þetta skjóti skökku við hvað varðar frelsi í viðskiptum segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti D-lista í borgarstjórn, að borgaryfirvöld geti sett svona skilmála. Það tíðkist til að mynda í öðrum löndum en hann bendir á þetta hafi verið gert í verslunarkjarna uppi í Eddufelli fyrir nokkrum árum og ekki haldið. Vilhjálmi finnst að borgaryfirvöld eigi að gera sem allra minnst af þessu þó kannski sé í lagi að gera þetta til nokkura ára. Í þessu tilviki séu þau vissulega liðin.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×