Innlent

Hóta að loka sorpstöðinni

Forráðamenn sveitarstjórnar Ölfuss tilkynntu fulltrúum sveitarfélaga, sem eiga aðild að Sorpstöð Suðurlands, að stöðinni yrði lokað þann 25. október næstkomandi og hafin innheimta útistandandi dagsekta, ef ekki væri kominn vísir að samkomulagi um urðun sorps. Þetta var tilkynnt síðdegis í gær, á fundi sem sveitarfélag Ölfuss boðaði til. Mikill hiti er í héraðinu vegna málsins. Hjörleifur Brynjólfsson oddviti sveitarstjórnar Ölfuss staðfesti þetta við Fréttablaðið eftir fundinn. Hann sagði, að dagsektir á hendur sorpstöðinni væru frá maí 2002 til september 204 og væru orðnar 42.6 milljónir króna. "Við erum að framfylgja þeirri skyldu okkar að bregðast við brotum á deiliskipulagi sem ekki hefur verið farið eftir við urðun hjá Sorpstöðinni," sagði hann. "Við erum með skipulagsyfirvaldið á þessu svæði og þolinmæði okkar er þrotin." Mikill ágreiningur hefur verið um starfsemi sorpstöðvarinnar í gegnum tíðina, einkum vegna hæðar haugsins, sem Hjörleifur sagði að væri kominn 3 - 7 yfir leyfilegri hæð. Einar Njálsson stjórnarformaður Sorpstöðvarinnar sagði, að stöðin væri með fullgilt starfsleyfi og alls ekki verið að brjóta deiliskipulag. Varðandi dagsektirnar sagði hann mjög vafasamt að möguleiki væri á að innheimta þær eftir svo langan tíma, auk þess sem starfsleyfi stöðvarinnar tæki beinlínis á hæð urðunarreinanna með tilliti til deiliskipulags.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×