Erlent

Bush og Kerry nánast jafnir

George Bush Bandaríkjaforseti og John Kerry, keppinautur hans um Hvíta húsið, tókust á af hörku í kappræðum í gærkvöldi. Báðir þóttu standa sig vel en John Kerry virðist hafa fallið betur í kramið hjá kjósendum.   Frambjóðendurnir skutu föstum skotum hvor að öðrum þar sem þeir mættust í Washington háskólanum í St. Louis í gærkvöldi. John Kerry sagði Bush reyna að blekkja bandarísku þjóðina hvað stríðið í Írak varðaði. Hann dró dómgreind Bush í efa og sagði að heimurinn væri ótryggari í dag vegna stríðsins en ella. Bush svaraði um hæl og sagði alla hafa talið að gjöreyðingarvopn væru að finna í Írak, og að hann væri ekki ánægður með að þau hefði ekki fundist. Saddam hefði hins vegar verið ógn sem gott hefði verið að bægja frá. Bush sagði Kerry sífellt slá í og úr um hvort að stríðið í Írak hefði verið réttmætt og Saddam ógn. Svar Kerrys var á þá leið að það hefði ekki verið tilgangurinn með viðskiptaþvingunum Sameinuðu þjóðanna að bola Saddam frá völdum, heldur að tryggja að hann ætti engin gjöreyðingarvopn. Nýjasta skýrsla vopnaeftirlitsmanns Bandaríkjastjórnar sýndi svo að ekki yrði um villst að það hefði tekist. En á meðan reynt hefði verið að steypa Saddam af stóli og koma skikkan á gang mála í Írak hefðu Íran og Norður-Kórea haldið áfram að þróa kjarnorkuvopn. Af þeim stafaði meiri hætta en af Írak. Hefðu menn einfaldlega notað áfram diplómatískar aðferðir í Írak hefði það ekki gerst. Að auki hefði mátt þyrma lífum yfir þúsund bandarískra hermanna sem farist hafa í Írak, og spara skattgreiðendum 200 milljarða dollara í fjárútlát vegna stríðsrekstursins. Könnun CNN að loknum kappræðunum leiddi í ljós að Kerry og Bush komu nánast hnífjafnt út. Dagleg könnun Reuters og Zogbi, sem kom út nú á tólfta tímanum, bendir til þess að Kerry gangi örlítið betur en Bush á landsvísu - hafi um prósentustigs forskot. Fréttaskýrendur segja að Bush hafi liðið betur í þessum kappræðum en að Kerry hafi þó haft nokkuð forskot á hann. Bush hafi þurft að verja gjörðir sínar og ákvarðanir. Kerry hafi að sama skapi tekist að virðast afslappaður, en kappræðurnar voru settar upp sem borgarafundur og fyrirfram talið að Kerry ætti erfiðara með að spjara sig við slíkar kringumstæður en í púlti.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×