Erlent

Kappræður Cheneys og Edwards

Kappræður Dicks Cheneys og Johns Edwards í kvöld eru taldar skipta meira máli en kappræður varaforsetaefna geri alla jafna. Búist er við að metfjöldi áhorfenda fylgist með kappræðunum þar sem innrásin í Írak verður líklega efst á baugi. Skoðanakannanir benda til þess að John Kerry hafi haft mun betur en George Bush í kappræðum forsetaframbjóðendanna á fimmtudaginn. Í kvöld er röðin komin að varforsetaefnunum Dick Cheney og John Edwards að setjast á rökstóla. Frammistaða Kerrys á fimmtudaginn hefur hleypt spennu í kosningabaráttuna á nýjan leik og með tilliti til þess hve jafnt er komið á með þeim Bush og Kerry eru kappræðurnar í kvöld taldar skipta meira máli en oftast áður þegar varaforsetaefni hafa mæst. Þá vekur það einnig sérstakan áhuga fólks á kappræðunum í kvöld hve gríðarlega ólíkir þeir Edwards og Cheney eru. Edwards er 51 árs gamall, unglegur og frískur, ættaður frá Suðurríkjunum og er á sínu fyrsta kjörtímabili sem þingmaður. Cheney, sem er 63 ára og kemur frá vesturhluta Bandaríkjanna, þykir hins vegar þyngri á manninn og virðist eldri en árin 63 gefa til kynna, auk þess sem hann hefur meira en þrjátíu ára reynslu af pólitík. Repúblikanar vonast til þess að sú reynslu muni nýtast honum til þess að hafa betur gegn hinum óreynda Edwards í kvöld. Demókratar binda á hinn bóginn miklar vonir við að frískleg framganga síns manns og reynsla úr réttarsölum muni vinna með honum gegn hinu þunga yfirbragði Cheneys. Kappræðurnar í kvöld eru einu kappræður þeirra Cheney og Edwards og því verða jafnt innan- sem utanríkismál á dagskránni. Þó hallast stjórnmálaskýrendur flestir að því að fátt muni komast að annað en innrásin í Írak, enda þykjast bæði Cheney og Edwards geta fundið snögga bletti hvor á öðrum í þeirri umræðu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×