Innlent

Hjálmari ekki falin ábyrgðastörf

Hjálmari Árnasyni, alþingismanni, verða ekki falin ábyrgðastörf á vegum Samtaka herstöðvaandstæðinga í framtíðinni. Var það samþykkt á fundi miðnefndar SHA í fyrradag og ennfremur að hann fái ekki Dagfara, tímarit samtakanna, sent heim. Er honum þó að fullu heimilt að sækja sér eintök á skrifstofu samtakanna. Ástæður þessa eru einkum þrjár. Í fyrsta lagi vegna ítrekaður stuðningur Hjálmars við stríðsrekstur og sprengjuárásir í fjarlægum löndum. Í öðru lagi yfirlýst afstaða hans um að Íslendingar skuli fylgja árásarstefnu Bandaríkjastjórnar í því skyni að skæla út áframhaldandi dvöl hersins á Miðnesheiði. Og í þriðja lagi margra ára afskiptaleysi Hjálmars af samkomum og aðgerðum samtakanna. Í tilkynningu SHA er tekið fram að með þessu sé ekki verið að reka Hjálmar úr samtökunum en áframhaldandi aðild verði hann að eiga við eigin samvisku. Hjálmar Árnason var virkur í starfi herstöðvaandstæðinga á sínum yngri árum og gekk meðal annars Keflavíkurgöngur þar sem veru hersins á Miðnesheiði var mótmælt og úrsagnar úr NATÓ krafist. Samþykkt SHA er í anda yfirlýsinga Hjálmars vegna stóra Kristins H. málsins.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×