Innlent

Leikskólakennarar líka í viðræðum

Leikskólakennarar standa einnig í kjaraviðræðum við sveitarfélögin en meginkrafa þeirra er að fá sambærileg laun og aðrir kennarar. Félag grunnskólakennara heyr nú harða verkfallsbaráttu en Félag leikskólakennara er einnig undir hatti Kennarasambands Íslands. Kjaraviðræður fyrir hönd 1500 leikskólakennara standa yfir. Aðspurð hvort líka stefni í verkfall á þeim vettvangi segist Björg Bjarnadóttir, formaður Félags leikskólakennara, vona ekki. Hún segir félagið ekki hafa fengið viðbrögð við sínum kröfum og á meðan svo sé þýði ekki að tala um verkfall.  Foreldrar fimmtán þúsund barna á leikskólum þurfa því ekki um sinn að hafa áhyggjur. Meginkrafa Félags leikskólakennara er skýr: Sambærileg laun og aðrir kennarar með sambærilega menntun og ábyrgð í starfi. „Þá kröfum byggjum við á sameiginlegum markmiðum Kennarsambandsins sem öll félög standa á bak við,“ segir Björg. Samband íslenskra sveitarfélaga segir á heimasíðu sinni ljóst að ekki sé hægt að fjalla um launaliðinn í kröfugerð leikskólakennara fyrr en niðurstaða er fengin í kjaradeilu grunnskólakennara. Það blasir við að sú niðurstaða mun hafa bein áhrif á leikskólakennara.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×