Innlent

Algjör trúnaðarbrestur

Algjör trúnaðarbrestur milli forystu Framsóknarflokksins og Kristins H. Gunnarssonar er ástæða þess að honum var neitað um setu í þingnefndum fyrir flokkinn. Kristinn segir að það hljóti eitthvað að vera að hjá forystu flokksins. Þessi umskipti þýða að tveir yngstu þingmennirnir taka við mikilvægum forystuhlutverkum í nefndum Alþingis. Kristinn H. Gunnarsson var formaður iðnaðarnefndar Alþingis og varaformaður þriggja nefnda, efnahags- og viðskiptanefndar, sjávarútvegsnefndar og samgöngunefndar. Hann var því í lykilhlutverki fyrir stjórnarmeirihlutann í fjórum þingnefndum. Kristinn settist upphaflega á þing fyrir Alþýðubandalagið árið 1991. Sjö árum síðar, árið 1998, sagði hann skilið við Alþýðubandalagið og gekk til liðs við Framsóknarflokkinn. Í gærkvöldi ákvað þingflokkur Framsóknarflokksins að hann yrði ekki í neinni þingnefnd fyrir hönd flokksins. Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, gaf þær skýringar á brottrekstri Kristins að þetta væri eins og í hjónabandi þar sem byrja einhverjr hnökrar og ekki er unnið á þeim. Strengir haldi svo áfram að slitna sem leiði til samstarfsörðugleika. Hann segir trúnaðinn, traustið og vináttuna hverfa og að lokum sé ástin horfin og í tilviki Kristins hafi því miður verið komið að þeim tímapunkti. Samkvæmt stjórnarskránni eru alþingismenn eingöngu bundnir við sannfæringu sína. Kristinn hefur hins vegar lent upp á kant við flokksforystuna í ýmsum málum í gegnum tíðina og er þar frægast fjölmiðlafrumvarpið síðastliðið vor. Engu að síður segir Kristinn niðurstöðuna í gær hafa komið sér á óvart. Við formennsku í iðnaðarnefnd Alþingis tekur Birkir Jón Jónsson en hann er 25 ára gamall. Birkir verður jafnframt varaformaður sjávarútvegsnefndar. Dagný Jónsdóttir fær sömuleiðis lykilhlutverk í þingnefndum en hún verður varaformaður bæði efnahags- og viðskiptanefndar og menntamálanefndar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×