Innlent

Málshöfðun í farvatninu

Hjördís Hákonardóttir mun leita réttar síns af endurnýjuðum krafti, að sögn Atla Gíslasonar lögmanns sem sinnir hagsmunum Hjördísar. Sem kunnugt er var það álit kærunefndar jafnréttismála að lög hefðu verið brotin á Hjördísi þegar síðast var skipað í Hæstarétt og hefur hún átt í samningaviðræðum við dómsmálaráðuneytið um lausn þess máls. "Jafnréttislögin eru aftur brotin á Hjördísi en í landslögum segir að jafna skuli stöðu kvenna og karla," segir Atli. "Með þessari skipan hefur dómsmálaráðherra sýnt eindreginn brotavilja og hertan ásetning gagnvart jafnréttislögum." Atli segir skipunina nú eins og blauta tusku framan í samningaviðræðurnar við ráðuneytið og ef þau mál skýrist ekki á næstu dögum fari þau að undirbúa dómsmál. Hann segir framkvæmdavaldið ganga gegn málefnalegri umsögn Hæstaréttar og fyrir vikið hafi hann áhyggjur af sjálfstæði réttarins. "Annars óska ég Jóni Steinari til hamingju og velfarnaði í störfum," sagði Atli.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×