Innlent

Vald ráðherra mikið við dómaraval

Deilt hefur verið um það undanfarið hvernig skipa skuli dómara við Hæstarétt hér á landi. Eins og kunnugt er skipar forseti Íslands í réttinn að tillögu dómsmálaráðherra, en dómsmálaráðherra byggir tillögu sína á umsögn Hæstaréttar. Hæstarétti er falið að skera úr um hvaða umsækjendur séu hæfir og hverjir ekki. Það er fróðlegt að skoða til samanburðar fyrirkomulag á skipan dómara í nágrannalöndunum. Það er margvíslegt, en þó virðist vald ráðherra vera einna mest hér á landi, ef eitthvað er. Danskir hæstaréttadómarar eru skipaðir af drottningunni eftir tillögu frá dómsmálaráðherra. Dómsmálaráðherra byggir tillögu sína á útnefningu sérstaks skipunarráðs, sem í eru sex meðlimir skipaðir til fimm ára -- einn hæstaréttardómari, tveir dómarar undirrétta, einn lögmaður og tveir fulltrúar almannavaldsins. Ráðið gerir rökstudda tillögu um aðeins einn aðila hverju sinni. Ráðherra getur, lagalega, gengið gegn vilja ráðsins í tillögu sinni til drottningar, en slíkt hefur ákveðnar stjórnskipulegar afleiðingar í för með sér. Forsetinn skipar hæstaréttardómara í Finnlandi að tillögu dómsmálaráðherra, ekki ósvipað og hér. Tillaga dómsmálaráðherra er hins vegar gerð á grunni tillögu frá hæstarétti sjálfum. Hæstiréttur hefur þannig mikið vald um skipan dómara í réttinn og virðist vald ráðherrans við skipan dómara vera nánast eingöngu formlegt. Í Þýskalandi skipar forsetinn í hæstaréttinn eftir útnefningu frá dómsmálaráðherra, en sérstök valnefnd hefur áður gert tillögu að dómara. Ráðherrann situr í nefndinni og hefur þar atkvæðisrétt ásamt öðrum meðlimum. Í Frakklandi er svipað uppi á teningnum, en þar skipar forsetinn formlega í réttinn eftir útnefningu frá ráðherra. Ráðherra fer þó sjaldan gegn niðurstöðu sérstaks dómstólaráðs sem hefur áður gert tillögu um dómara. Ofangreindar upplýsingar eru fengnar úr nefndaráliti um breytingar á norska dómskerfinu frá 1999.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×