Menning

Strákarnir okkar á KR-velli

Þó að knattspyrnuvertíðinni sé formlega lokið í ár sáust kunnuglegir búningar á KR-vellinum í Frostaskjólinu í dag. Þar fóru fram tökur á atriði úr myndinni „Strákarnir okkar“ sem er væntanleg í kvikmyndahús snemma á næsta ári. Töluverður fjöldi fólks var mættur í stúkuna í Frostaskjóli í dag, til þess að horfa á leikmenn KR og Fylkis, og jafnvel í þeirri von að fá að bregða fyrir á hvíta tjaldinu á komandi mánuðum. Þarna var samankomið fólk á öllum aldri, jafnt gamlir fastagestir af Melavellinum, sem yngra fólk sem aldrei hefur litið KR völlinn stúkulausan. Meðal áhorfenda voru einnig Elvis-bræður sem héldu uppi stemmningu í stúkunni. Þó að ekki hafi leikmenn meistaraflokka Fylkis og KR látið sjá sig kom það ekki að sök því aðalleikari myndarinnar hafði augljóslega unnið heimavinnuna sína og yljaði áhorfendum með öruggum spyrnum sem þöndu netmöskvana Róbert Douglas er leikstjóri myndarinnar og segir hann tökur hafa gengið þrælvel fram að þessu. Upptökurnar á KR- vellinum í dag séu í raun síðustu tökur og því styttist í að bíógestir fái að sjá myndina, sem verður líklega í byrjun næsta árs.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×