Innlent

Gargandi þvæla segir Sveinn Andri

Alls hafa um 120 lögmenn skrifað undir stuðningsyfirlýsingu við Jón Steinar Gunnlaugsson um að hann verði skipaður í stöðu hæstaréttardómara. Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður segist ekki vita hversu margir hafi verið beðnir um að skrifa undir áskorunina. Gunnar Jónsson, formaður Lögmannafélagsins, viðraði efasemdir sínar um réttmæti slíkrar undirskriftasöfnunar í fréttum Ríkissjónvarpsins í gær. Hann segir hana vekja upp spurningar um hæfi þeirra lögmanna sem standi að söfnuninni til að reka mál fyrir Hæstarétti verði Jón Steinar skipaður, og ekki síður um hæfi þeirra lögmanna sem skrifa undir þessa áskorun, og eins hæfi þeirra sem ekki skrifa undir hana. Sveinn Andri segir svona undirskriftasöfnun fullkomlega réttlætanlega og hann vísar gagnrýni formanns Lögmannafélagsins algerlega á bug. Hann segist sem lögmaður gera þá kröfu til formannsins að hann fari ekki í fjölmiðla með hvaða vitleysu sem er. Sveinn Andri segir hann hafa óumbeðinn gagnrýnt skipan Ólafs Barkar Þorvaldssonar í stöðu Hæstaréttardómara í fyrra en formaðurinn hafi samt ekki krafist þess að Ólafur viki sæti í þeim málum sem Gunnar hafi flutt fyrir Hæstarétti. Sveinn Andri segir að samkvæmt kenningu formanns Lögmannafélagsins eru þeir lögmenn sem skrifa undir listann til stuðnings Jóni Steinari að gagnrýna átta dómara Hæstaréttar. Með sömu aðferðafræði megi segja að allir þessir dómarar séu vanhæfir til að kveða upp dóma í þeim málum sem viðkomandi lögmenn reka fyrir Hæstarétti, og jafnframt þeir lögmenn sem ekki skrifuðu undir. Af þessu leiðir að allir dómarar Hæstaréttar séu vanhæfir að dæma í öllum málum allra lögmanna á Íslandi að sögn Sveins. „Þetta er náttúrlega bara gargandi þvæla,“ segir lögmaðurinn.   Ríkissjónvarpið greindi frá því í gær að skjalið sem sent hafi verið hundruðum lögmanna hafi verið skrifað og sent úr tölvu Jóns Steinars Gunnlaugssonar. Sveinn Andri segir þetta týpíska „ekki-frétt“. Honum sé ekki kunnugt um hvernig greinin hafi víxlast á milli en það liggi fyrir hvaða lögmaður samdi fyrsta uppkast að greininni og Ríkissjónvarpinu hafi verið bent á það, og reyndar útskýrt rækilega fyrir þeim, en samt hafi þeir haldið áfram með fréttina. „Þetta er týpísk „ekki-frétt“ sem sett er fram í einhverjum annarlegum tilgangi,“ segir Sveinn Andri. Hægt er að hlusta á viðtal við Svein Andra úr hádegisfréttum Bylgjunnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×