Innlent

Meirihluti á móti ríkisstjórninni

Meirihluti landsmanna er andsnúinn ríkisstjórninni, að því er fram kemur í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins. Tæplega 52 prósent þeirra sem spurðir voru og tóku afstöðu sögðust andvíg ríkisstjórninni en 48 prósent fylgjandi. Ríkisstjórnarflokkarnir bæta þó við sig talsverðu fylgi frá því í könnun Fréttablaðsins í júlí. Þeir hafa þó ekki náð sameiginlega jafnmiklu fylgi og þeir hlutu í síðustu alþingiskosningum og gætu ekki myndað meirihluta ef kosið væri nú. Framsóknarflokkurinn bætir mest við sig samkvæmt könnuninni og nær tvöfaldar fylgi sitt frá því í júlí. Flokkurinn mælist nú með 13,5 prósenta fylgi, var með 7,5 prósent í júlí en fékk 17,7 prósent atkvæða í síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig tæpum 3 prósentum frá því í júlí og mælist nú með meira fylgi en í þingkosningunum. Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir könnunina vísbendingu um að fjölmiðlamálið sé að dala í hugum fólks. Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir að flokkur sinn eigi alltaf mikið inni frá skoðanakönnunum. "Það jákvæða við þessar niðurstöður er að fylgi við flokkinn er á uppleið og vonum við að svo verði áfram fram að kosningum," segir hann. Allir þrír stjórnarandstöðuflokkarnir tapa um tveggja prósenta fylgi hver frá því í júlí samkvæmt könnuninni. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar segist hafa átt von á betri útkomu stjórnarflokkanna í skoðanakönnun á þessum tímapunkti. "Þá miða ég við þá óvanalegu skrautreið sem þeir hafa átt í gegnum fjölmiðlana í tilefni svokallaðra ríkisstjórnarskipta," segir Össur.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×