Innlent

Fylgi við stjórnarflokkana eykst

Ríkisstjórnarflokkarnir tveir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, bæta við sig rúmlega 8,6 prósentustiga fylgi samanlagt frá því í júlí samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Flokkarnir mælast nú saman með 48,4 prósenta fylgi, voru með 39,8 prósenta fylgi samkvæmt könnun blaðsins í júlí en fengu 51,4 prósent atkvæða í síðustu kosningum. Spurt var sérstaklega um afstöðu til ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar sögðust 51,9 prósent þeirra sem tóku afstöðu andvíg ríkisstjórninni en 48,1 prósent sagðist fylgjandi henni. Framsóknarflokkurinn hefur nær tvöfaldað fylgi sitt frá því í júlí en hefur þó ekki náð sama fylgi og í síðustu alþingiskosningum samkvæmt  niðurstöðum könnunarinnar. Framsókn mældist með 13,5 prósenta fylgi nú en var með 7,5 samkvæmt könnun blaðsins í júlí. Flokkurinn fékk 17,7 prósent atkvæða í alþingiskosningunum á síðasta ári. Sjálfstæðisflokkurinn eykur lítillega við fylgi sitt frá því í júlí, samkvæmt könnuninni, og mælist nú með 34,9 prósenta fylgi, sem er rétt rúmu prósentustigi meira en í síðustu alþingiskosningum og 2,6 prósentustigum hærra en í júlí. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa allir tapað fylgi frá því í júlí samkvæmt könnuninni. Samfylkingin mældist með 28,6 prósenta fylgi nú, var með 31,3 prósenta fylgi í júlí en hlaut 31 prósent atkvæða í alþingiskosningum. Frjálslyndi flokkurinn er samkvæmt könnuninni nú með 6,1 prósents fylgi, sem er rúmum 2 prósentustigum minna en í síðustu könnun. Flokkurinn fékk 7,4 prósent atkvæða í síðustu þingkosningum. Vinstri grænir mældust með fjórum prósentustigum minna fylgi nú en í júlí en eru með 16,5 prósenta fylgi samkvæmt könnuninni. Það er samt 7,7 prósentustigum meira en fylgi flokksins í þingkosningunum í fyrra. Ef gengið hefði verið til kosninga nú hefðu stjórnarflokkarnir tveir því ekki getað myndað meirihluta samkvæmt könnuninni. Þeir hefðu fengið 31 þingmann en eru með 34 nú. Alls voru 800 spurðir í könnuninni og tóku um 64 prósent þeirra afstöðu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×