Menning

Fallegasta breytingin

Ritstjórn Kelley Blue Book, handbókar fyrir bílakaupendur í Ameríku, hefur kosið hinn nýja Ford Mustang "fallegasta nýja útlitið" af árgerð 2005. Skoðaðir voru bílar sem voru endurhannaðir á milli árgerða og Mustanginn fékk bestu einkunn hjá þessari virtu handbók. Þetta er annað árið í röð sem Ford fer með sigur af hólmi því á síðasta ári var það F-150 pallbíllinn sem þótti hafa fengið bestu fegrunaraðgerðina. "Eitt af grundvallaratriðunum við hönnun nýja útlitsins var að halda í þau atriði sem hafa gert Mustanginn að þeim bíl sem hann er, en kynna samt til leiks bíl sem er ólíkur fyrri bílum af sömu tegund," segir Phil Martens, hönnunarstjóri Ford í Ameríku. "Þegar góð vara er endurhönnuð, eins og við gerðum með Mustanginn, er lykilatriðið að breyta ekki því sem gerir hana að góðri vöru." Hið nýja útlit bílsins fylgir tískustraumum sportbíla dagsins í dag: Harðir aðdáendur gamla Mustangs geta þó huggað sig við það að ættarsvipurinn er sterkur og á margan hátt mun líkari eldri bílunum en síðasta yfirbygging.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×