Innlent

Þetta er ekki deila ríkisins

Forsætisráðherra segir ekki koma til greina að ríkið hlaupi undir bagga með sveitarfélögum til að mæta kröfum kennara. "Þetta er ekki okkar deila," segir Halldór Ásgrímsson. Hagfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga segir fjárhagsstöðu margra sveitarfélaga bága. Hún sé ekki eina fyrirstaða þess að erfiðlega gangi að semja við kennara. "Starfsfólk sveitarfélaganna er um 19 þúsund. Kennarar eru rúmlega fjögur þúsund. Þetta er því ekki bara spurning um hvort sveitarfélögin hafi efni á að koma til móts við þær kröfur sem kennarar fara fram á heldur verða sveitarfélög að standa ábyrg gagnvart öðrum starfsmönnum sínum," segir Gunnlaugur Júlíusson, sviðstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Gunnlaugur segir stöðu sveitarfélaga víða erfiða. Hann veltir fyrir sér hvort rétt sé gefið þegar ríkið telji sig geta lækkað skatta en sveitarfélögin safni skuldum og standi jafnvel frammi fyrir skattahækkunum. Það sé þó aðeins ein leið tveggja. Hin sé forgangsröðun verkefna sem ekki séu lögbundin, megi þar nefna menningarmál, íþróttamál og æskulýðsmál. "Ef ríkið telur sig eiga möguleika á að lækka skatta sín megin en sveitarfélögin segja; Við ráðum ekki við þau verkefni sem við höfum, þá er þetta spurning um millifærslu þar sem ríki og sveitarfélög eru sitt hvor hliðin á hinu opinbera," segir Gunnlaugur. Halldór Ásgrímsson segir hafa verið ljóst þegar sveitarfélögin tóku við grunnskólunum á sínum tíma að meira fjármagn frá ríkinu kæmi ekki til greina. Greiðslur ríkisins til sveitarfélaganna hafi ekki verið of lágar. Sveitarfélögum hafi verið veitt einum milljarði umfram þann kostnað sem ríkið hafi borið af grunnskólunum: "Sveitarfélögin verða að leysa kjaradeilu við kennurum á sínum vettvangi."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×