Innlent

Sjálfbær þróun í samgöngum

Áherslur í samgöngumálum borgarinnar byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þetta sagði Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, við setningu Evrópskrar samgönguviku í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær. Árni sagði að borgaryfirvöld legðu megináherslu á eflingu almenningssamgangna, bættar aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og vistvæna orkugjafa. Árni sagði umferðarstjórnun vera öflugt stjórntæki sem gefist hefði vel erlendis og bætti við: "Sömuleiðis er brýnt að fyrirtæki, stofnanir og skólar beiti sveigjanlegum opnunar- og vinnutíma í enn ríkari mæli en nú er enda getur það haft mikil áhrif til að jafna álagið í umferðarkerfinu," sagði Árni Þór. "Sérstaklega er ástæða til að hvetja forráðamenn fjölmennra vinnustaða, eins og Landspítalans, Háskólans og framhaldsskólanna til að vinna markvisst í þá veru og Reykjavíkurborg er að sjálfsögðu reiðubúin til að leggja því lið eins og unnt er." Þetta er í annað sinn sem Reykjavíkurborg tekur þátt í Evrópskri samgönguviku en meginþema vikunnar í ár er öryggi barna í umferðinni. Evrópsku samgönguvikunni lýkur á miðvikudag en þá er bíllausi dagurinn og frítt í strætó.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×