Innlent

Hægt að afstýra verkfalli

Hægt væri að afstýra kennaraverkfalli ef umræður um vinnutíma og kennsluskyldu væru teknar út af samningaborðinu. Það segir Gísli Baldvinsson, námsráðgjafi í Síðuskóla á Akureyri og fyrrum formaður Kennarafélags Reykjavíkur. Kristín Kolbeinsdóttir, formaður Bandalags kennara á Norðurlandi eystra, segir vinnutíma og kennsluskyldur það sem skipti kennara mestu máli í kjaraviðræðunum. Það stafi af álagi í starfi: "Ef við frestum þeim viðræðum núna náum við ekki að semja um þau atriði." Gísli segir að meðan deilendur séu læstir í skilgreiningu á vinnutíma og kennsluskyldu kennara komist þeir ekki áfram. "Ástæðan er mjög einföld. Kröfur kennara varðandi kennsluskylduna þýða fleiri kennara í skólana og jafnvel stærra húsnæði. Sveitarfélögin vilja eðlilega lengri tíma að þeirri aðlögun," segir Gísli. "Ef öðru en hækkun byrjunarlauna kennara væri sópað út af borðinu, sett í nefnd eða frestað væri hægt að semja á tiltölulega skömmum tíma. Ég myndi íhuga það verulega og afstýra verkfallinu," segir Gísli. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, segir þær fjárhæðir sem rætt sé um í kjaraviðræðunum það háar að sveitarfélögin hafi ekki rekstrargetu til að uppfylla kröfunar. Um vinnutíma kennara þurfi samt að ræða. Gísli sat í stóru samninganefnd kennara fyrir kjaraviðræðurnar árið 1984. Hann kveðst hafa varað við flutningi grunnskóla til sveitarfélagana ásamt þáverandi formanni Kennarasambandsins, Svanhildi Kaaber. "Ástæðan er einfaldlega sú að við töldum að meðlag ríkisins væri of lágt. Það myndi gera það að verkum að sveitarfélögin kæmust í peningaþröng. Skólamál eru að verða stærsti hlutinn af útgjöldum margra sveitarfélaga. Tiltölulega lítil sveitarfélög eru að greiða frá 50-70% í menntamál," segir Gísli. Halldór segir sama hvort talað sé um grunnskóla eða önnur verkefni sem sveitarfélögin hafi tekið við af ríkinu. Fyrir liggi að þau hafi farið halloka í þeim samningum. Þrátt fyrir það sé ekki hægt að semja við kennara um gríðarlega hækkun launa og sækja síðan peninga til ríkisins til að mæta útgjöldunum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×