Innlent

Skotmaður á geðdeild

Maður sem skaut úr haglabyssu á tvö hús á Reykhólum í Barðastrandarsýslu hefur verið vistaður á geðdeild. Annar maður hefur játað að eiga 170 kannabisplöntur sem fundust í húsnæði í Reykjavík, þar sem byssumaðurinn hafði dvalið. Maðurinn skaut að minnsta kosti tíu skotum að tveimur íbúðarhúsum á Reykhólum um klukkan hálf sex á laugardagsmorgun. Hann hvarf svo af vettvangi. Maðurinn var ekki í andlegu jafnvægi þegar atburðurinn átti sér stað og í dag fengust þær upplýsingar frá lögreglu að hann hefði verið vopnaður riffli ásamt haglabyssunni. Hann mun hinsvegar einungis hafa beitt haglabyssunni þegar hann skaut á húsin. Sérsveit Ríkislögreglustjóra var kölluð vestur en engin skipuleg leit var gerð að manninum. Lögreglan í Reykjavík fór að eigin frumkvæði í málið snemma í gærmorgun og var maðurinn handtekinn á gangi við húsnæði í austurborginni. Við húsleit fundust um 170 kannabisplöntur. Maðurinn hafði dvalið í húsnæðinu en lögregla segir í dag að hann hafi ekki átt plönturnar, heldur hafi annar maður játað við yfirheyrslur að eiga þær.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×