Innlent

68 prósent vilja að Davíð hætti

Rúmlega 68% þeirra sem afstöðu taka í nýrri könnun Fréttablaðsins telja að Davíð Oddsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, eigi að hætta afskiptum af stjórnmálum þegar hann lætur af embætti forsætisráðherra 15. september en 32 prósent telja að hann eigi að halda áfram í stjórnmálum. Í sömu könnun sögðust 32,3 prósent þeirra sem tóku afstöðu styðja Sjálfstæðisflokkinn. Þegar litið er til þessara stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins eingöngu segja 71 prósent þeirra að Davíð eigi ekki að hætta afskiptum af stjórnmálum 15. september en 29% af stuðningsmönnum flokksins töldu að hann ætti að hætta á þeim tímapunkti. Samkvæmt samkomulagi formanna stjórnarflokkanna mun Davíð láta af embætti forsætisráðherra 15. september og Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, setjast í þann stól. Á sama tíma færist umhverfisráðuneytið frá Framsóknarflokki yfir til Sjálfstæðisflokks. Davíð Oddsson hefur gengt embætti forsætisráðherra í rúm þrettán ára, frá 30. apríl 1991, lengst allra íslenskra ráðherra. Davíð hefur sjálfur ekki gefið uppi hvort hann hyggist halda áfram í stjórnmálum eftir 15. september. Enginn munur var á afstöðu kynja í könnun Fréttablaðsins en marktækur munur var á afstöðu fólks eftir búsetu. Á landsbyggðinni töldu 72,4 prósent að Davíð ætti að hætta en 65,1 prósent voru þeirrar skoðunar í þéttbýli af þeim sem afstöðu tóku. Könnun Fréttablaðsins var framkvæmd síðastliðinn föstudag. Hringt var í 800 manns, skipt jafnt milli kynja sem og landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, og tóku 91,8% afstöðu til spurningarinnar sem var svohljóðandi: "Telur þú að Davíð Oddsson eigi að hætta afskiptum af stjórnmálum þegar hann lætur af embætti forsætisráðherra 15. september í haust?"


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×