Innlent

Fyrsti stjórnarmaður félags fanga sem ekki er fangi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
„Það er heiður fyrir mig að fá að vinna fyrir svo flott félag,“ segir Aðalheiður Ámundadóttir, lögfræðingur og fyrrverandi starfsmaður þingflokks Pírata á Alþingi, en hún hefur tekið sæti í stjórn Afstöðu, félagi fanga.

Hún er fyrsti stjórnarmaður félagsins sem er ekki fangi. Þá er hún fyrsta konan sem tekur sæti í stjórn Afstöðu.

„Eftir að ég hætti í starfi mínu sem starfsmaður þingflokksins vildi ég halda áfram að sinna þessum mikilvæga málaflokki. Þetta er sá málaflokkur sem mér þykir vænst um,“ segir Aðalheiður og bætir við að henni finnist aðdáunarvert hvað Afstaða er öflugt félag.

Afstaða hefur undanfarin ár barist fyrir auknu vægi betrunar í stað refsistefnu með það að markmiði að fækka endurkomum í fangelsi á Íslandi.

Í tilkynningu frá Afstöðu segir að mikilvægt sé að hafa talsmann utan fangelsisins enda sé mikið starf unnið þar. Mikilvægt sé að fangar geti komið umkvörtunarefnum og því sem miður fer á framfæri við fjölmiðla og stjórnvöld án þess að þurfa að óttast afleiðingar í afplánun sinni, en fangar eru eðli málsins samkvæmt í þeirri aðstöðu að eiga alla sína velferð undir þeim sem fangelsunum stýra.

Afstaða fagnar nýju stjórnarkonunni enda muni hún koma til með að auka trúverðugleika og vigt félagsins.

„Nú byrjum við bara á því að gera aðgerðaáætlun. Við erum með mörg járn í eldinum, bæði hvað varðar breytta löggjöf og til dæmis vinnumál. Mig langar að ræða við atvinnurekendur og reyna að koma því betur á kortið að fangar hafi eitthvað að gera bæði í fangelsum og þegar þeir ljúka afplánun. Það er svo margt sem mig langar að gera fyrir málaflokkinn þannig það verður að forgangsraða vel,“ segir Aðalheiður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×