Innlent

Fyrsta skóflustungan að hofi Ásatrúarfélagsins: „Þetta mun breyta öllu fyrir okkur“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók fyrstu skóflustunguna.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók fyrstu skóflustunguna. myndir/silke
Að loknum sólmyrkvanum í dag var fyrsta skóflustungan tekin að Hofi Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíðinni. Á Facebook-síðu Ásatrúarfélagsins segir að þetta marki tímamót í trúar og menningarsögu Norður-Evrópu.

Hofið verður 350 fermetrar að stærð og mun rúma um 250 manns. Miðað er við að framkvæmdum ljúki í lok septembermánaðar á næsta ári.



Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði segir um að ræða stærstu tímamót í sögu Ásatrúarfélagsins.

Fylgst var vel með sólmyrkvanum.vísir/gva
„Þetta er stór dagsetning fyrir okkur. Þetta mun breyta öllu fyrir okkur því við höfum ekki haft aðstöðu sem rúmar okkar starfsemi,“ segir Hilmar. 

Athöfnin hófst klukkan 08:38 við upphaf sólmyrkvans og voru þá mynduð táknræn vébönd, kveikt á kertum í höfuðáttum og blótað til heilla staðarvættum. Þegar myrkvinn náði hámarki klukkan 09:37 var kveiktur eldur á þeim stað þar sem helgidómurinn mun rísa.

„Þarna getum við reist byggingu sem verður einkennisbygging í Reykjavík. Þetta verður fyrst og fremst safnaðarheimili, en við verðum líka með skrifstofuaðstöðu.“ 

Sólmyrkvanum lauk um 10:40 og þá var tekin fyrsta skóflustungan og svæðið og samkoman helguð.

Myndirnar hér að neðan tók ljósmyndarinn Silke Schurack. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×