Sport

Fyrsta Íslandsmótið utanhúss í bogfimi um helgina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd / Bogfimi.net
Fyrsta Íslandsmótið utanhúss í bogfimi fer fram að Laugum í Reykjadal um helgina. Keppt verður í sveigboga- og trissubogaflokki hjá körlum, konum og unglingum 17-20 ára á laugardeginum en í langbogaflokki á sunnudeginum.

Í sveigbogaflokki verður skotið af 70 metra færi og skotið tvisvar sinnum 36 örvum. Í trissubogaflokki verður skotið af 50 metra færi og einnig skotið 36 örvum tvisvar sinnum.

Líkt og verið hefur á Íslandsmótinu innanhúss fer útsláttarkeppnin fram að lokinni undankeppni. Seinni part morgundagsins verður einnig keppt í hálfum FITA hring, þ.e. 30 og 50 metra færi.

Á sunnudeginum hefst keppni árla morguns klukkan 9 með keppni í langbogaflokki. Skotið verður af 30 metra færi. Eftir hádegi verður Opna Reykjadalsmótið haldið með FITA 900 sniði þar sem 30 örvum er skotið af 40,50 og 60 metra færi.

Nánari upplýsingar um keppnina á Bogfimi.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×