Innlent

Fyrrverandi sendiherra: Stígið varlega til jarðar í samskiptum við Kína

Höskuldur Kári Schram skrifar
Einn reyndasti sendiherra Íslands segir að stjórnvöld eigi að stíga varlega til jarðar í samskiptum sínum við Kínverja sem á síðustu árum hafi stóraukið umsvif sín á Norðurslóðum.

Einar Benediktsson starfaði í utanríkisþjónustunni í tæpa fjóra áratugi og var meðal annars sendiherra Í París, London og Washington. Hann kom að undirbúningi að inngöngu Íslands í EFTA og starfaði einnig fyrir Ísland þegar samið var um EES-samninginn.

Einar skrifaði grein í Morgunblaðið í vikunni þar sem hann bendir á það hvernig valdajafnvægið í heiminum sé smám saman að færast til Asíu. Íslendingar þurfi að vera vakandi fyrir þessum breytingum.

„Ég bendi á þann mikla þunga í breytingunum sem er sá að Kína verður þetta mikla efnahagsveldi - og náttúrulega herveldi - og það sem ég segi er það að þeirra hagsmunir núna eru allt aðrir en þeir voru," segir Einar.

Einar talar um hið nýja heimsveldi í þessum skilningi. Kínverjar hafi sýnt Íslandi mikinn áhuga og nefnir hann heimsókn Wen Jiabo, forsætisráðherra Kína, á síðasta ári í þessu sambandi.

„Það er nú heyrir til stórtíðinda og er með ólíkindum að forsætisráðherra núna, stærsta efnahagsveldis heims - sem að Kína varð á síðasta ári - skuli koma til Íslands með hundrað manna fylgdarlið áður en stærri Evrópuríki eru sótt heim - þar sem þeir hafa meiri hagsmuna að gæta efnahagslega. Og þetta með ísbrjótinn sömuleiðis, þeir eru að sýna að þeir eru á svæðinu, og ætla sér að vera þar," segir Einar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×