Erlent

Fyrrverandi forseti Tsjad dæmdur fyrir glæpi gegn mannkyninu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Habré hafði uppi talsvert háreisti á meðan réttarhöldunum stóð.
Habré hafði uppi talsvert háreisti á meðan réttarhöldunum stóð. vísir/epa
Hissene Habré, fyrrverandi forseti Tsjad, hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi af dómstól í Senegal fyrir glæpi gegn mannkyninu. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir nauðgun, að hneppa fólk í kynlífsánauð og að fyrirskipa dráp á saklausum borgurum. Um málið er fjallað á vef BBC.

Habré varð árið 1978 fyrsti forsætisráðherra Tsjad en fjórum árum síðar rændi hann völdum í landinu og sat á stóli forseta frá 1982 til 1990. Þegar honum var steypt af stóli flúði hann vestur á bóginn til Senegal og hefur dvalist þar til dagsins í dag.

Árið 2012 fyrirskipaði Alþjóðadómstóllinn í Haag yfirvöldum í Senegal að sækja Habré til saka fyrir meint brot hans. Honum var gert að sök að hafa fyrirskipað morð á allt að 40.000 manns á meðan hann réð ríkjum í landi sínu.

Réttarhöld yfir Habré hófust skömmu eftir handtöku hans árið 2013. Forsetinn fyrrverandi neitaði ítrekað að viðurkenna lögsögu dómstólsins og þurfti margsinnis að færa hann til þinghalds með valdi. Þá hrópaði hann ókvæðisorð að dómurum og starfsmönnum réttarins og kallaði réttarhöldin „farsa“.

Árið 2005 hafði verið gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur Habré vegna glæpa hans og í heimalandinu hefur hann verið verið dæmdur til dauða fyrir brot sín. Líklegt þykir að hann fái að afplána refsingu sína í senegölsku fangelsi.


Tengdar fréttir

Fyrrverandi forseti Tsjad dæmdur til dauða

Dómstóll í Afríkuríkinu Tsjad hefur úrskurðað fyrrverandi forseta landsins, Hissan Habre, til dauða fyrir valdaránstilraun. Var Habre dæmdur fyrir að skipuleggja árás á höfuðborg landsins, N‘Djamena, fyrr á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×