Innlent

Fyrrum stjórnendur og aðaleigandi Kaupþings fá ekki tölvugögn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði áður hafnað kröfu Hreiðars Más Sigurðssonar, Sigurðar Einarssonar, fyrrum stjórnenda Kaupþings, og Ólafs Ólafssonar, sem var einn aðaleigenda bankans, um að fá afhent endurrit af skýrslum á hljóð- og mynddiski af öðrum sakborningum og vitnum í máli gegn þeim sem er til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara.

Talið var að skylda til afhendingar afrita skjala máls samkvæmt lögum um meðferð sakamála, næði einungis til afrita af skjölum í pappírsformi en ekki til eftirgerðar af öðrum gögnum hvort heldur eru hljóð- eða mynddiskar.

Málið snýst um rannsókn sérstaks saksóknara á kaupum Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlut í Kaupþingi banka á árinu 2008 og hafa Hreiðar Már, Sigurður og Ólafur réttarstöðu sakborninga við þá rannsókn. Skýrslur af sakborningum og vitnum í málinu hafa verið teknar upp í hljóði og mynd. Sóknaraðili tók þá ákvörðun að yfirheyrslurnar yrðu endurritaðar orðrétt samkvæmt reglugerð um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl.

Verjendur Ólafs, Sigurðar og Hreiðars óskuðu eftir því 10. ágúst 2009 að fá afhent afrit af öllum rannsóknargögnum málsins sem höfðu bæst við eftir afhendingu rannsóknargagna 2. júlí sama ár. Þann 13. ágúst voru gögnin afhent að undanskildum afritum af skýrslum á hljóð- og mynddiskum af sakborningum og vitnum. Skýrsla af varnaraðila sjálfum var þó afhent á mynddiski. Verjendum mannanna var boðin aðstaða til að kynna sér upptökur af öðrum yfirheyrslum en þeir fengu ekki gögnin afhent.

Fjölskipaður Hæstiréttur kvað upp dóminn en Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari skilaði sératkvæði og vildi fella úrskurð Héraðsdóms úr gildi þannig að verjendur fengu afrit af gögnunum.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×