Innlent

Fyrirtæki feðga fær heimild Orkustofnunar til gullleitar í Vopnafirði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Iceland Recources hefur bent á nokkur svæði í Vopnafjarðarhreppi til gullleitar.
Iceland Recources hefur bent á nokkur svæði í Vopnafjarðarhreppi til gullleitar. vísir/pjetur
„Við erum ekki farin að mala gull,“ segir Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, þar sem félagið Iceland Resources hefur fengið leyfi Orkustofnunar til að leita að gulli og kopar að því er kemur fram í Austurfrétt.

Fram kom í Fréttablaðinu í júlí síðastliðnum að Iceland ­Resources hygðist leita að gulli og kopar norðan við Hveragerði, norðarlega í Héraðsflóa við Vopnafjörð og á sex öðrum stöðum á Íslandi.

Eigandi Iceland Resources er félagið JVC Capital í London sem er í eigu feðganna Vilhjálms Kristins Eyjólfssonar stjórnarformanns og Vilhjálms Þórs Vilhjálmssonar, framkvæmdastjóra Iceland Resources. Sagði sá síðarnefndi í Fréttablaðinu í júlí að átta ára undirbúning þyrfti að lágmarki áður en að hugsanlegri námuvinnslu kæmi. Samkvæmt umsókn Iceland Resources á að verja 940 milljónum króna í rannsóknir á fimm árum. Að því er segir í umsókn félagsins mun almenningshlutafélagið Arak Resources, sem skráð er í kauphöll í Kanada, leggja til fjármagn og eignast 75 prósent í JVC að frumrannsóknum loknum.

Ólafur Áki segir að hvað Vopnafjörð varðar sé um að ræða reiti vítt og breitt í sveitarfélaginu, að mestu á jörðum í landi einka­aðila. „Það er gull hér; sjávargull og gull í fólkinu. Við áttum okkur alveg á því að það er ekki að fara að breyta atvinnuástandinu hjá okkur þótt hér komi nokkrir menn og leiti,“ segir sveitarstjórinn sem áður kveðst hafa séð til gullleitarmanna á þegar hann var í Djúpavogi. „Þeir fóru um á þyrlu og rannsökuðu jarðveginn.“

Stefán Grímur Rafnsson oddviti segir þetta ekki verða í fyrsta skipti sem menn rannsaki hvort vinna megi gull í Vopnafirði. „Persónulega hef ég ekki séð gull hér en maður hefur heyrt talað um það,“ svarar oddvitinn aðspurður.

Átta svæði eru tilgreind í leyfisumsókn Iceland Resources.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×