Lífið

Fyrirsæta þeytir skífum á Boston

Baldvin Þormóðsson skrifar
Kolfinna Kristófersdóttir er fær í að halda uppi stuði hvert sem hún fer.
Kolfinna Kristófersdóttir er fær í að halda uppi stuði hvert sem hún fer. mynd/helgiómars
Ofurfyrirsætan og skemmtikrafturinn Kolfinna Kristófersdóttir hélt uppi stuðinu á Boston seinasta miðvikudagskvöld en það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig.

Þegar fyrirsætan mætti á staðinn og var að tengja græjur sínar við kerfið sló út og mixerinn hennar bilaði. Það tók hins vegar vana plötusnúða sem voru á staðnum ekki langan tíma að koma henni til bjargar. Natalie Gunnarsdóttir, betur þekkt sem DJ Yamaho, birtist sem himnasending og fór að vinna að því að laga græjurnar.

Þegar allt kom fyrir ekki gerði Natalie sér lítið fyrir, hljóp heim til sín og náði í nýjan mixer til þess að tengja fyrir Kolfinnu. Eftir öll ósköpin þá gekk allt upp og fyrirsætan leiddi dansþyrsta gestina inn í nóttina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×