Innlent

Fylgdu ekki hefðinni og felldu síðustu tillögu Hildar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks. vísir/stefán
Síðasta tillaga Hildar Sverrisdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, í borgarstjórn Reykjavíkur var felld í gær. Á fundinum baðst Hildur lausnar en hún hefur tekið sæti á Alþingi.

Tillagan sneri að því að borgarstjórn myndi beina þeim tilmælum til Alþingis að það yrði haft í huga við meðferð svokallaðs áfengisfrumvarps að aukið aðgengi að áfengisverslun styddi við markmið aðalskipulags Reykjavíkur um sjálfbærari hverfi.

Í samtali við Fréttablaðið fyrir fundinn sagði Hildur að eitt af markmiðum aðalskipulags væri að gera hverfi sjálfbærari. Mikilvægur þáttur í því markmiði sé að efla hverfisverslun.

„Nú er það svo að áfengi er algeng neysluvara, hvað svo sem fólki kann að finnast um það. Þar sem meirihluti borgarbúa getur ekki nálgast þá neysluvöru innan síns hverfis, eða í göngufæri, vinnur sá punktur gegn þessu markmiði aðalskipulags,“ sagði Hildur.

Hefð hefur verið fyrir því að síðustu tillögur borgarfulltrúa séu samþykktar. „Það var hefðin, en eins og frægt varð í síðustu tillögu hinnar ágætu Bjarkar Vilhelmsdóttur um viðskiptabann á Ísrael rann kannski upp fyrir fólki að þetta væri fullafgerandi heimild,“ sagði Hildur.

Hún sagðist ekki vera að stilla neinum upp við vegg með þetta mál en sér fyndist það eitthvað sem borgarfulltrúar ættu að geta samþykkt ef þeir ætluðu að standa með aðalskipulaginu.

Á fundinum mætti tillagan nokkurri andstöðu. Sagði Hildur í ræðu sinni að önnur sjónarmið en skipulagssjónarmið væru ríkjandi í huga andmælenda. „Það veldur mér vissum vonbrigðum,“ sagði Hildur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×