Innlent

Furðufiskurinn batti veiddist hér í annað sinn

Svavar Hávarðsson skrifar
Batti hefur aðeins einu sinni veiðst við Ísland áður.
Batti hefur aðeins einu sinni veiðst við Ísland áður. Mynd/Hafró
Fyrir skömmu færði Eiríkur Ellertsson, sjómaður á Örfirisey RE, Hafrannsóknastofnun afar fáséðan og sérkennilegan fisk. Fiskurinn heitir batti (Dibranchus atlanticus) og veiddist í botnvörpu 6. maí á 695 metra dýpi við Reykjaneshrygg. Fiskurinn var 15,5 sentimetra langur.

Tegundin hefur bara einu sinni áður veiðst við Ísland, svo vitað sé. Sá fiskur veiddist í júní 2007 í botnvörpu á 550-700 metra dýpi í Skaftárdjúpi og var 17 sentimetra langur.

Fæða þessa djúpsjávarfisks er einkum burstaormar en hann étur einnig botnlægar marflær, samlokur, slöngustjörnur, krossfiska og fleiri hryggleysingja, segir í skriflegu svari frá Hafrannsóknastofnun.

Í austanverðu Atlantshafi er batti undan Grænhöfðaeyjum, ströndum Gíneu og allt til Angóla. Þá hefur hann veiðst undan ströndum Portúgals og Frakklands og nokkrum sinnum djúpt undan norðausturströnd Írlands.

Heimkynni batta í vestanverðu Atlantshafi eru frá ströndum Kanada, suður með Bandaríkjunum og inn í Mexíkóflóa, Karíbahaf og suður með ströndum Suður-Ameríku allt til Brasilíu.

Batti er djúpsjávarbotnfiskur sem heldur sig á leir- og sandbotni við landgrunnsbrúnir, mest á 300-800 metra dýpi, en hefur veiðst á 45-1.300 metra dýpi. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×