Innlent

Furðuðu sig á lágflugi ljóslausrar þyrlu yfir Hveragerði á sama tíma og rafmagn fór af

Birgir Olgeirsson skrifar
„Þetta var mjög furðulegt,“ segir íbúi um lágflug þyrlunnar yfir Hveragerði í gærkvöldi.
„Þetta var mjög furðulegt,“ segir íbúi um lágflug þyrlunnar yfir Hveragerði í gærkvöldi. Vísir
Rafmagn fór skyndilega af Hveragerði um tíu leytið í gærkvöldi en um sama leyti heyrðu Hvergerðingar miklar drunur frá þyrlu sem flaug afar lágt yfir bænum.

Margar spurningar leituðu á bæjarbúa í kjölfar þessa atviks og kviknuðu miklar umræður inni á Facebook-hópnum Hvergerðingar.

Árný Guðfinnsdóttir, íbúi í Hveragerði, segir í samtali við Vísi að rafmagnið hefði hægt og rólega farið af öllum bænum, það er að segja að ljósin dofnuðu í stað þess að rafmagnið fari af líkt og öryggi slái út.

Lágt á lofti

Nokkrum sekúndum síðar hafi þyrlan komið fljúgandi yfir bæinn með öll ljós slökkt, þegar hún var farin frá Hveragerði kom rafmagn aftur á bæinn.

„Ég hélt að hún væri að fara að lenda í götunni okkar, hún var svo lágt á lofti. Þetta var mjög furðulegt,“ segir Árný sem segir þyrluna hafa flogið aftur yfir Hveragerði, en þá mun hærra á lofti, um miðnætti.

TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar.Vísir/Ernir
Skammhlaup við endurnýjun á endabúnaði

RARIK ohf. sér Hvergerðingum fyrir rafmagni en í svari frá þeim kemur fram að í gærkvöldi hafi staðið til að skipta um endabúnað á strengjum inn á spenni. Ekki var búast við því að það yrði straumleysi hjá notendum. RARIK var með rafstöð til að koma straumi inn á kerfið og einnig frá ellefu kílóvatta línum frá Selfossi og Þorlákshöfn.

Þegar verið var að koma öllu í gang á ný varð skammhlaup í rafal rafstöðvarinnar sem varð þess valdandi að hann sló út.

Það gerði það að verkum að mikið álag var á línum frá Selfossi og Þorlákshöfn sem slógu einnig út og varð þar með spennuvirkið í Hveragerði rafmagnslaust.

Ljósin slökkt á nætursjónaukaflugi

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia, sem stýrir flugumferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu, var það þyrla Landhelgisgæslunnar sem var á ferð yfir Hveragerði í gær.

Í svörum frá Landhelgisgæslunni kemur fram að þyrlan hafi verið á æfingaflugi yfir Suðurlandi í gærkvöldi og að hún hafi ekki sinnt neinu útkalli. Þegar notast er við nætursjónauka þyrlunnar er stundum slökkt á öllum ljósum hennar og gæti það hafa verið í þessu tilviki í gærkvöldi þegar hún flaug yfir Hveragerði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×