Viðskipti innlent

Fullt út úr dyrum á Landsbankafundi á Akureyri

Steinþór Pálsson, bankastjóri.
Steinþór Pálsson, bankastjóri.
Fundaröð Landsbankans hófst í gærkvöld á Akureyri. Í tilkynningu frá bankanum segir að mjög góð mæting hafi verið á fundinn og sköpuðust líflegar umræður að loknum erindum. „Tilgangurinn með þessum opnu fundum er að hlusta og skiptast á skoðunum við fólkið í landinu og eigendur bankans."

Á fundinum kynntu nýir stjórnendur Landsbankans stefnu bankans og framtíðarsýn, þær breytingar sem gerðar hafa verið á starfseminni og ítarlegan aðgerðalista fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs.

„Aðgerðalistinn er í sex meginliðum. Samkvæmt honum munu starfsmenn bankans skrifa undir sérstakan siðasáttmála, gefin eru fyrirheit um aðgerðir vegna skuldavanda heimila og fyrirtækja og betri þjónustu. Þá er fjallað um hlut Landsbankans í uppbyggingu efnahagslífsins og samfélagslegt hlutverk bankans. Aðgerðalistinn byggir á stefnu bankans sem ber yfirskriftina „Landsbankinn þinn""



Á listanum má finna fjölda fyrirheita, þar á meðal:


  • Við heitum því að setja bankanum og starfsfólki hans nýjan siðasáttmála og birta hann opinberlega fyrir 1. mars.
  • Við bjóðum viðskiptavinum sem þegar hafa fengið birtan endurútreikning í Einkabankanum að ganga frá sínum málum nú þegar.
  • Við ætlum að bjóða öllum fyrirtækjum sem falla undir skilgreininguna um Beinu brautina skuldaaðlögun fyrir 1. júní.
  • Við ætlum að efla sérhæfða fræðslu fyrir starfsmenn með það að leiðarljósi að bæta ráðgjöf til viðskiptavina.
  • Við ætlum að birta helstu ábendingar og athugasemdir viðskiptavina ásamt viðbrögðum okkar og lausnum á heimasíðu bankans í síðasta lagi 15. mars.
  • Við ætlum fyrir 1. júlí að kynna skráningu tveggja félaga í eigu bankans á markað og efla þannig íslenskan hlutabréfamarkað.
  • Við ætlum að kynna nýja og heilsteypta stefnu um samfélagslega ábyrgð ásamt lykilverkefnum fyrir 1. maí.






Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×