Lífið

Fullt af fríum myndasögum

Þórgnýr Albertsson skrifar
Gísli Einarsson, eigandi Nexus, og Þórhallur Björgvinsson, starfsmaður búðarinnar, gefa gestum búðarinnar myndasögur í dag.
Gísli Einarsson, eigandi Nexus, og Þórhallur Björgvinsson, starfsmaður búðarinnar, gefa gestum búðarinnar myndasögur í dag. vísir/gva
Myndasögum verður fagnað um allan heim í dag þegar Ókeypismyndasögudagurinn verður haldinn hátíðlegur. Hérlendis fara hátíðarhöldin fram í Nexus í Nóatúni. Líkt og tíðkast annars staðar í heiminum mun Nexus gefa myndasögur og eru titlarnir margir. Þeirra á meðal er eitt íslenskt myndasögublað, ÓkeiPiss sem forlagið Ókei-Bækur gefur út. ÓkeiPiss, sem nú kemur út í fimmta skipti, er samansafn íslenskra myndasagna sem sendar voru inn í blaðið og fá þar fjölmargir listamenn pláss.

„Fyrirtæki nota þennan dag til að kynna nýja titla, nýjar seríur og sögur,“ sagði Gísli Einarsson, eigandi Nexus. Hann segir myndasögusenuna á Íslandi fara sístækkandi og á Ókeypismyndasögudagurinn hlut í því. Auk þess segir hann góða hluti vera að gerast í myndasögugeiranum. „Maður verður að fylgjast með til að ná þessum parti af vestrænni menningu. Þar eru hlutir að gerast sem finnast hvergi annars staðar í blöndu af texta og mynd.“

myndasaga með hliðarefni
Saga myndasögunnar á Íslandi 

  • Bókaforlagið Fjölvi fór að gefa út íslenskar þýðingar á bókaröðum á borð við Ævintýri Tinna, Ástrík gallvaska og Lukku-Láka upp úr 1970. Síðan þá hefur vegur myndasögubóka á Íslandi farið vaxandi. 
  • Fyrsta íslenska myndasögubókin er talin vera Pétur og vélmennið: Vísindaráðstefnan sem Kjartan Arnórsson, sem kallar sig Kjarnó, gaf út árið 1979, fjórtán ára gamall. 
  • Með vaxandi áhuga Íslendinga á myndasögum voru æ fleiri bókaraðir skrifaðar og þýddar hérlendis. 
  • Árið 1993 opnaði síðan fyrsta íslenska sérvöruverslunin með myndasögur, Goðsögn við Rauðarárstíg. 
  • Arftaki hennar, Nexus, var svo opnuð 1996.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×