Fótbolti

Fullkomið kvöld fyrir Belga | Á toppnum á þremur stöðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin De Bruyne fagnar með félögum sínum í kvöld.
Kevin De Bruyne fagnar með félögum sínum í kvöld. Vísir/Getty
Belgíumenn tryggðu sér í kvöld sigur í B-riðli undankeppni EM eftir öruggan heimasigur á Ísrael en þeir voru eins og Íslendingar búnir að tryggja sér sæti á Evrópumótinu í Frakklandi fyrir lokaleikina í riðlinum.

Belgar unnu 3-1 sigur á Ísrael í kvöld og fengu þar með tveimur stigum meira en lið Wales sem vann á sama tíma 2-0 sigur á Andorra. Wales er komið á sitt fyrsta Evrópumót eins og Ísland.

Dries Mertens, Kevin De Bruyne og Eden Hazard skoruðu mörk Belga í kvöld en De Bruyne lagði einnig upp eitt markanna. Aaron Ramsey og Gareth Bale skoruðu mörk Wales í sigrinum á Andorra.

Þetta var fullkomið kvöld fyrir Belga því auk þess að ná sínum markmiðum þá sátu nágrannar þeirra og erkifjendur, Hollendingar einnig eftir í riðli Íslands eftir tap á heimavelli á móti Tékkum. Þetta verður fyrsta Evrópumótið frá árinu 1984 þar sem Hollendingar eru ekki meðal þátttökuþjóða.

Belgar geta ekki bara fagnað sigri í riðlinum í kvöld því þeir náðu einnig tveimur öðrum toppsætum með þessum sigri á Ísrael.

Belgar verða nefnilega komnir upp í efsta sæti heimslista FIFA þegar hann kemur út næsta og þá verða þeir einnig í efsta styrkleikflokki þegar dregið verður í riðla fyrir úrslitakeppni Evrópumótsins í Frakklandi.

Það verður dregið í riðla í úrslitakeppninni 12. desember næstkomandi.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×