Lífið

Frystiklefinn á Rifi fékk Eyrarrósina

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Frá afhendingunni í morgun.
Frá afhendingunni í morgun.
Frystiklefinn á Rifi er handhafi Eyrarrósarinnar 2015 sem afhent var um borð í bátnum Húna nú síðdegis. Eyrarrósinni fylgja hæstu peningaverðlaun sem veitt eru menningarverkefni hér á landi, 1,65 milljónir króna.

Dorrit Moussaieff er verndari Eyrarrósarinnar.
Tvö önnur verkefni voru tilnefnd í ár; Listasafn Árnesinga í Hveragerði og Sköpunarmiðstöðin Stöðvarfirði. Hljóta þau 300 þúsund króna verðlaun auk flugmiða frá Flugfélagi Íslands.

Frystiklefinn á Rifi er menningarmiðstöð, listamannaaðsetur og farfuglaheimili þar sem haldnir eru menningar- og sögutengdir viðburðir allt árið. Í tilkynningu segir að markmið Frystiklefans sé að stuðla að auknu framboði og fjölbreytni í menningarlífi á Vesturlandi, auka þátttöku bæjarbúa og gesta í menningar- og listviðburðum og að varðveita, nýta og miðla sagnaarfi Snæfellinga.

Áhöfnin á Húna tók lagið en sveitin er handhafi Eyrarrósarinnar 2014.
Það var Dorrit Moussiaeff forsetafrú sem afhenti verðlaunin en hún er verandi Eyrarrósarinnar. Gísli Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, ávarpaði samkomuna sem og Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar.

Áhöfnin á Húna, sem hlaut Eyrarrósina á síðasta ári, flutti svo nokkur lög við góðar undirtektir gesta, að því er segir í fréttatilkynningu.

Að verðlaununum standa Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×