Innlent

Frumvörp eru tóm tímasóun

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir.
Búið er að leggja fram 182 mál á Alþingi í haust. Af þeim á stjórnarandstaðan 112. Stjórnarandstaðan hefur lagt fram 14 lagafrumvörp, 23 þingsályktanir og 75 fyrirspurnir.

„Á meðan sú hefð ríkir á Alþingi að þingmannafrumvörp stjórnarandstöðunnar eru nánast aldrei samþykkt sjá Píratar ekki tilgang í að leggja þau fram, enda þingflokkurinn fámennur. Mér finnst hrein tímasóun að eyða tíma í að semja frumvörp,“ segir Birgitta Jónsdóttir þingmaður og bætir við að þó að Píratar leggi ekki mikið upp úr því að leggja fram frumvörp þá leggi þingmenn Pírata áherslu á að leggja fram tillögur að lagabreytingum á þeim frumvörpum sem Alþingi hefur til meðferðar á hverjum tíma.

Píratar hafa það sem af er þingi lagt fram þrjár þingsályktunartillögur. „Við leggjum áherslu á að leggja fram vandaðar þingsályktunartillögur og leggjum mikla vinnu í þær. Það eru mun meiri líkur á að stjórnarandstaðan fái þingsályktunartillögur samþykktar heldur en lagafrumvörp,“ segir Birgitta.

Píratar hafa lagt fram fjölda fyrirspurna á þingi í haust.

„Ég hef fengið mjög gagnlegar upplýsingar um hin ýmsu mál með því að leggja fram fyrirspurnir. Upplýsingar sem ég hefði ekki fengið að öðrum kosti. Fyrirspurnir eru góð leið fyrir þingmenn til að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Þær eru líka góð leið til að hreyfa við málum,“ segir hún og bætir við að almenningur eigi oft á tíðum erfitt með að fá upplýsingar úr stjórnsýslunni. Því hafi hún og flokkssystkini hennar lagt fram fyrirspurnir fyrir fólk sem hafi komið fram með vel rökstuddar beiðnir þar að lútandi.

Guðmundur Steingrímsson.
„Við erum með mörg mál í gangi sem eiga eftir að líta dagsins ljós á næstu dögum,“ segir Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, og nefnir að Björt framtíð ætli að leggja fram frumvarp um uppljóstrara og réttindi þeirra, þá sé frumvarp um breytingar á mannanafnalögum á leiðinni og annað um mannréttindamál.

„Við ætlum líka að endurflytja frumvarp til laga um breytingar á frídögum frá fyrra þingi og þingsályktunartillaga um að taka upp sumar- og vetrartíma verður líka endurflutt,“ segir Guðmundur og boðar auk þess þingsályktun um landbúnaðarkerfið.

Hvað varðar fáar fyrirspurnir á þingi segir Guðmundur að Björt framtíð hafi lagt fram margar fyrirspurnir á síðasta þingi og það verði farið að dæla þeim inn að lokinni kjördæmaviku en henni lýkur nú um helgina. „Við förum að spýta í lófana hvað þetta varðar,“ segir hann.

Guðmundur minnir á að einungis séu þrjár vikur liðnar síðan þing kom saman. Björt framtíð sé á leið inn í þingið með mörg mál. Hann segir að á síðasta löggjafarþingi hafi flokkurinn náð fjórum málum í gegnum þingið sem sé mjög góður árangur hjá stjórnarandstöðuflokki. Stefnt sé að því ná fleiri málum í gegn á þessu þingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×